Vilja leita að gulli

Gull.
Gull. ISSEI KATO

Ástralska fyrirtækið Platina Resources Ltd. hefur sótt um leyfi til leitar og rannsókna á gulli og öðrum málmum á Austurlandi. Umsóknin tekur til 6.370 ferkílómetra og Platina óskar eftir að sækja um leyfi til tveggja ára. Beri rannsóknir árangur er líklegt að fyrirtækið muni senda inn umsóknir vegna nýrra rannsóknarleyfa.

Fyrirtækið hefur þegar fjögur rannsóknarleyfi á Grænlandi, og hefur að undanförnu lagt mikla áherslu á austurströnd Grænlands. Sækir það meðal annars vistir og sérfræðiþjónustu hingað til lands. Eftir samráð við sérfræðinga hér á landi var sótt um leyfið og eru þrjú svæði talin sérstaklega áhugaverð, þ.e. í grennd við Vopnafjörð, Breiðavík og Breiðdal. Þar hafa áður fengist niðurstöður sem sýna 0,45 grömm af gulli í tonni, 0,16 g/t og 0,86 g/t í hverju tilviki fyrir sig.

Verði rannsóknarleyfið samþykkt er búist við að safna um það bil 2.000 botnfallssýnum úr straumvötnum; sýnin verða síðan send með flugfrakt til efnagreiningar hjá SGS Laboratories í Toranto.

Orkustofnun hefur sent út umsagnir, m.a. til umhverfisráðuneytis og um 1.200 landeigenda. Frestur til að koma að athugasemdum er til 9. júní nk. Verði umfang athugasemdi ekki þeim mun meira má gera ráð fyrir ákvörðun Orkustofnunar í júlí nk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert