Rjómablíða á Hvannadalshnjúk

Á Hvannadalshnúk. Úr myndasafni.
Á Hvannadalshnúk. Úr myndasafni. Rax / Ragnar Axelsson

„Færið er einstaklega gott. Þetta er eitt besta göngufæri sem ég hef kynnst á jöklinum. Fólk er alveg í skýjunum,“ sagði Haraldur Örn Ólafsson fjallgöngukappi fyrir stundu er hann var í rjómablíðu á Hvannadalshnjúk ásamt fríðu föruneyti 124 fjallgöngumanna, að meðtöldum fararstjórum.

Hitastigið er um frostmark, logn og glampandi sól. 

„Þetta er búið að vera glimrandi flott í dag. Við byrjuðum reyndar í þoku fyrstu klukkutímana og það fór nú um suma. Síðan gengum við upp úr skýjunum og höfum verið hér í glampandi sól og skýjum ofar. Það er steikjandi hiti.“

Haraldur Örn gjörþekkir gönguleiðina upp á hnúkinn enda er þetta í 40. sinn sem hann stendur á tindinum.

En er þetta alltaf jafn gaman?

„Alla vega á svona degi. Þá er þetta alltaf jafn stórkostlega gaman. Þetta er besta göngufærið sem ég hef séð. Veðrið er alveg æðislegt.“

- Hvað tekur uppgangan langan tíma?

„Við vorum átta tíma upp á toppinn og verðum hérna í svona klukkutíma. Svo erum við fjóra tíma niður þannig að fyrstu hópar eru svona þrettán tíma upp og niður en svo eru aðrir sem fara þetta á svona fjórtán til fimmtán tímum. Við gengum Sandfellsleið frá Sandfelli sem er algengasta gönguleiðin í dag.“

Fylgjast má með gönguhópnum hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert