Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þurfti að hafa afskipti af hópslagsmálum í Hafnarstræti upp úr klukkan fimm í dag. Voru þar komnir saman um 20 fjórtán til sextán ára gamlir strákar. Einn þurfti að leita aðstoðar á slysadeild, en hann varð fyrir spörkum og fékk auk þess stuð úr rafstuðtæki sem ólöglegt er hér á landi. Þá voru einhverjir strákanna vopnaðir kylfum.
Hinn slasaði fór sjálfur upp á slysadeild, en lögreglan er búin að ræða við bæði hann og foreldra hans. Einn var handtekinn og er búið að boða tvo til viðbótar til yfirheyrslu, en lögreglan hefur rætt við flesta strákanna og foreldra þeirra. Ástæða slagsmálanna mun hafa verið samskipti sem fóru um msn-samskiptaforritið.
Slagsmálin áttu sér stað fyrir utan Kaffi Rót í Hafnarstræti, og hringdu sjónvarvottar á lögregluna.