Samanlagðar skuldir íslenskra fyrirtækja í árslok 2008 samkvæmt skattframtölum 2009 námu í heild 22.675 milljörðum króna. Þetta kemur fram í grein Páls Kolbeins, hagfræðings hjá Ríkisskattstjóra. Greinin birtist í tímariti embættisins, Tíund.
Skuldaaukningin frá árslokum 2007 nam yfir 40%. Aukningin var hin sama á árinu 2007, en á þenslutímanum jukust skuldir mest á árinu 2006, eða um tæp 65%. Árið 2008 sker sig hins vegar frá árunum tveimur á undan, vegna þess að lítil sem engin eignaaukning fylgdi hækkandi skuldum. Það sést glögglega á því að eigið fé íslenskra fyrirtækja fuðraði hreinlega upp, en það nam 177 milljörðum króna í árslok 2008. Um er að ræða ríflega 97% lækkun frá árslokum 2007, þegar samanlagt eigið fé íslenskra fyrirtækja nam 7.178 milljörðum króna.
Íslensku bankarnir eru augljóslega veigamiklir í þessum tölum, en eigið fé stóru bankanna þriggja auk Icebank og Straums var 867 milljarðar króna í árslok 2007.
Fram kemur í grein Páls að íslensk fyrirtæki hafi tapað samanlagt 9.600 milljörðum króna á árinu 2008. Hlutfall fyrirtækja sem eiga minna en þau skulda hækkar hins vegar ekki jafnmikið og margur hefði haldið, eða um 8%. Vísbendingar eru um að verulega hafi slegið í baksegl smárra og meðalstórra fyrirtækja, líkt og kemur fram í greininni.