„Íslenskur öskuverkur“

Gosið hefur sett strik í reikninginn í ferðum margra.
Gosið hefur sett strik í reikninginn í ferðum margra. Ragnar Axelsson

Spurningin hvort forfallatrygging bæti skaða ferðamanna vegna aflýstra ferða af völdum eldgossins í Eyjafjallajökli brennur á mörgum þessa dagana. Fjallað er um málið í Los Angeles Times og rakið hvernig nagandi óvissan hefur leikið margan ferðamanninn grátt. Um 30% Bandaríkjamanna hafa ferðatryggingu.

Greinin er aðgengileg á vef blaðsins og er í fyrirsögninni snúið út úr því máltæki að finna til í óæðri endanum með því að setja enska orðið fyrir ösku í staðinn.

Vitnað er í konu að nafni Alexandra Dostrow sem segir farir sínar ekki sléttar af samskiptum við ferðaskrifstofu.

Hún hafi ásamt tveimur ferðafélögum orðið strandaglópur í París vegna gossins og því orðið af ferð til Egyptalands og svo áfram til nokkurra áfangastaða.

Kveðst Dostrow hafa orðið af háum fjárhæðum af þessum sökum, kostnaður sem hún vill nú endurgreiddan.

Þá er rætt við hjónin David og Ellen Friedman sem töpuðu nokkur hundruð dölum vegna aflýsts flugs. Þau hafa nú keypt ferðatryggingu fyrir næstu ferð til að tryggja að þetta endurtaki sig ekki.

Blaðið ræðir jafnframt við fyrirtæki sem býður upp á ferðatryggingar en þar fengust þær upplýsingar að fyrirspurnir væru þrefalt fleiri en í meðalári.

Greinina í Los Angeles Times má nálgast hér en fram kemur að um 30% Bandaríkjamanna hafi ferðatryggingu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert