Leggur „öskuskatt“ á Breta

Frétt Daily Mail. Íslendingar geta ekki kvartað undan skorti á …
Frétt Daily Mail. Íslendingar geta ekki kvartað undan skorti á athygli þessa dagana.

Umfang efnahagstjónsins af völdum eldgossins í Eyjafjallajökli er að taka á sig skýrari mynd. Nýjar upplýsingar frá Bretlandi sýna að ferðum um breskum lofthelgina fækkaði um 21,5% í apríl miðað við sama tíma í fyrra. Þessi röskun á flugi er án fordæmis. Nýr „öskuskattur“ hefur litið dagsins ljós.

Alls fóru 141.956 flugvélar í gegnum bresku lofthelgina í apríl samanborið við 180.166 í fyrra. 

Haft er eftir Ian Hall, yfirmanni bresku flugumferðarstjórnarinnar (NATS), að röskunin sem orðið hafi á flugi vegna gossins sé án nokkurs fordæmis.

Breska götublaðið Daily Mail fjallar um málið út frá sjónarhorni ferðalanga sem hafa lent í hremmingum eftir að ferðum var aflýst.

Segir í frétt blaðsins að tryggingarisinn Aviva hyggist leggja sérstakan „öskuskatt“ á ferðamenn í formi ferðatryggingar sem geti numið allt að 80 pundum, eða sem svarar 14.800 krónum, á hverja meðal fjölskyldu, nú þegar sumarfríin eru að skella á.

Fram kemur að 150.000 Bretar, hálf íslenska þjóðin, hafi orðið strandaglópar í apríl vegna aflýstra flugferða.

Eru önnur tryggingafélög sögð munu fylgja í kjölfar Aviva svo að ljóst er að öskuskatturinn verður all drjúgur þegar upp er staðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert