Spænskir ferðaþjónustuaðilar hugsa Eyjafjallajökli líklega þegjandi þörfina eftir skelfilegan aprílmánuð af völdum gossins og þeirrar röskunnar sem það hefur valdið á flugi. Ætla má að tap spænskra ferðaþjónustufyrirtækja vegna aflýstra ferða hlaupi á milljörðum, ef ekki tugmilljörðum króna.
Þannig sýna nýjar tölur að 3,9 milljónir færri farþegar fóru um Spán í apríl en í sama mánuði í fyrra, samdráttur sem nemur 13,3%.
Er dýfan nær eingöngu rakin til gossins á Íslandi.
Það er víðar en á Íslandi þar sem efnahagsreikningar drjúpa af rauðu bleki vegna gossins því forstjóri British Airways, Willie Walsh, segir vart hafa verið hægt að ganga í gegnum verri árshelming í rekstrinum en raun beri vitni vegna þeirrar geysilegu röskunnar sem eldfjallið hefur valdið á rekstri félagsins.
Kemur tapið af völdum gjóskunnar á versta tíma fyrir félagið sem rær nú lífróður eftir mikinn taprekstur.