Lögreglan hefur sinnt umferðareftirliti í samvinnu við Landhelgisgæsluna undanfarna daga. Flogið hefur verið á þyrlu og fylgst með umferð, bæði á þjóðvegunum og eins hvort einhverjir hafa verið á ferð um lokaða hálendisvegi eða stunda utanvegaakstur.
Bílar hafa verið stöðvaðir og ástand aftanívagna verið kannað, auk þess að fylgjast með hraðakstri og ölvunarakstri.
Lögreglumaður sem var í eftirliti með þyrlunni á Vesturlandi í gær sagði að nokkuð margir hafi verið teknir fyrir hraðakstur. Einn ungur ökumaður, með bráðabirgðaskírteini, mældist vera á 145 km hraða á Mýrunum á leið til Borgarness. Hann hægði verulega á sér þegar hann mætti bílum en gaf svo hressilega í á milli.
Þegar pilturinn kom í Borgarnes var þyrlunni lent hjá honum og rætt við kauða. Hann fer væntanlega í akstursbann og fær þrjá punkta í ökuferilsskrána, sem var víst eitthvað punktuð fyrir. Ökuþórinn var á lánsbíl.
Hann skýrði skrykkjóttan hraðann með því að hann hafi ekki hætt á að mæta lögreglunni í hraðakstrinum en hafði ekki hugmynd um að fylgst var með honum úr þyrlunni.