Aðeins tveir gistu fangageymslur lögreglu höfuðborgarsvæðisins við Hverfisgötu í nótt og þykir tíðindum sæta. Nóttin var með rólegasta móti og um sextíu verkefni skráð frá miðnætti og fram á morgun. Ástandið var keimlíkt hjá öðrum embættum lögreglu..
Að sögn varðstjóra lögreglu höfuðborgarsvæðisins vantaði svo sem ekki upp á skemmtanaglatt fólk í miðbænum og voru sumir lengi að. Þó bar nóttin með sér að um mikla ferðahelgi er að ræða, og víst að ólátabelgir hafi haldið úr höfuðborginni.
Hjá lögreglunni á Selfossi fengust sömu fregnir. „Margt fólk að skemmta sér en yfirþyrmandi rólegt,“ sagði varðstjóri þaðan í léttum tón. Sama staða var uppi á teningnum annars staðar á landinu.