Rannsókn sérstaks saksóknara á meintum lögbrotum stjórnenda Kaupþings banka miðar vel, að sögn Ólafs Þórs Haukssonar, og það þrátt fyrir að Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings neiti að mæta til yfirheyrslu. Ólafur segir stöðuna gagnvart Sigurði óbreytta.
Sigurður kvaðst nýverið hafa boðist til að mæta í yfirheyrslur en aðeins gegn því skilyrði að hann fengi að fara aftur til Bretlands að því loknu. „Slík skilyrði eru alvanaleg í aðstæðum sem þessum,“ sagði Sigurður við sænska blaðið Dagens Industri og bætti við að væri heima hjá sér í Chelsea og ekkert leynimakk væri í kringum staðsetningu hans.
Gefinn var út alþjóðleg handtökuskipun á hendur Sigurði sem hann kærði til dómstóla. Hæstiréttur vísaði málinu frá í síðustu viku.
Ólafur Þór segist ekki geta upplýst um hvort embættið hyggi á sérstakar aðgerðir til að koma höndum yfir Sigurð. Staðan í málum hans sé sú sama og fyrir helgi; hann neiti að koma til landsins og handtökuskipunin standi.
Farbann yfir Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, Magnúsi Guðmundssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings í Lúxemborg, Ingólfi Helgasyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþing á Íslandi og Steingrími Kárasyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra áhættustýringar rennur út næstkomandi föstudag. Ólafur Þór segist ekki gefa upplýsingar um hvort farið verði fram á framlengingu farbannsins.