Þarf kjark til að stoppa í fjárlagagatið

Íslenskir fánar við Alþingishúsið
Íslenskir fánar við Alþingishúsið mbl.is/Ómar

„Verkefnið er að reyna að stoppa í það gat sem hrunið skildi eftir sig og fólk verður bara að hafa kjark til að takast á við það ,“ segir Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, um gagnrýni samflokkskonu sinnar, Lilju Mósesdóttur.

Eins og fram hefur komið sagði Lilja sig úr ríkisfjármálahópi. Í frétt á vef mbl.is var haft eftir Lilju að skortur væri á því að leitað væri fleiri leiða en niðurskurðar, því hann muni bara herða kreppuna.

Nauðsynlegt að taka ákvarðanir, þótt þær reynist erfiðar

„Okkur var falið að hefja undirbúning fjárlaga næsta árs, með áherslu á niðurskurð í útgjöldum og samkvæmt þeirri efnahagsáætlun sem ríkisstjórnin lagði fram síðasta sumar, m.a. í samstarfi við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn,“ segir Björn Valur um ríkisfjármálahópinn. „Verkefnið er ekki nýtt heldur hefur lengi legið fyrir að í þessari áætlun felst ákveðið hlutfall milli þess að annars vegar auka tekjur ríkisins og hins vegar minnka útgjöld þess.“

Björn Valur vísar þeim ummælum Lilju á bug að hugmyndir sem Björn Valur kynnti hafi ekki verið ræddar innan stjórnarflokkanna. „Þetta hefur verið margrætt í þingflokki VG og eflaust líka í þingflokki Samfylkingar, og er í anda þess sem aðrir stjórnmálaflokkar hafa lagt fram á þingi. Einnig þetta hefur verið rætt á þinginu í um það bil ár.

Nú þarf bara að fara að taka ákvarðanir, þótt það muni reynast einhverjum erfitt.“

Gríðarleg andstaða við skattlagningu séreignasparnaðar

Um þá tillögu Lilju að flýta eigi skattlagningu séreignasparnaðar, eins og Sjálfstæðismenn hafa lagt til, segir Björn Valur: „Sjálfstæðismenn og Lilja Mósesdóttir eru þeir á landinu sem eru fylgjandi því að skattleggja lífeyrissparnað með þeim hætti sem kemur fram í tillögum Sjálfstæðisflokksins. Gríðarleg andstaða er við þetta hjá öllum þeim sem að málinu koma, svo sem hjá Samtökum atvinnulífsins, stéttarfélögunum og sveitarfélögunum.“

Aðspurður hvort ágreiningur þeirra Lilju endurspegli klofning innan Vinstri grænna, segir Björn Valur: „Það er langur vegur frá því. Ég veit ekki betur en að þingflokkur vinstri grænna sé einhuga um að afgreiða þetta verkefni eins og fyrir hefur verið lagt.“

Björn Valur Gíslason
Björn Valur Gíslason
Lilja Mósesdóttir
Lilja Mósesdóttir mbl.is/Ásdís
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert