Grásleppuvertíð í innanverðum Breiðafirði hófst sl. fimmtudag. Þá máttu bátar leggja grásleppunetin. Mikið var um að vera við höfnina í Stykkishólmi þegar trillukarlar voru að gera bátana klára í slaginn.
Mikill áhugi er á veiðunum að þessu sinni. Fróðustu menn telja að aldrei hafi fleiri bátar verið gerðir út frá Stykkishólmi á grásleppu en nú.
Samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu var úthlutað 24 leyfum strax á fimmtudag í innanverðum Breiðafirði og alls hefur verið úthlutað 58 leyfum í Breiðafirði á þessari vertíð.