„Eftir alla gagnrýnina á einkavæðingarferlið er sem stjórnarflokkarnir hafi öllu gleymt og ekkert lært,“ skrifar Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í aðsendri grein um nýtt stjórnarfrumvarp til breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki.
Bjarni segir að það hafi verið mistök að setja ekki skorður við stærð eignarhluta einstakra eigenda við sölu ríkisbankanna á sínum tíma. Nú leggi ríkisstjórnin ekki til neinar breytingar á reglum um eignarhald á fjármálafyrirtækjum. Þá séu reglur um viðskipti eigenda við bankana ófullnægjandi í frumvarpinu.
Í grein sinni í Morgunblaðinu í dag segir Bjarni einnig nauðsynlegt að skilja á milli innlánsstarfsemi og fjárfestingastarfsemi banka.