Gefa veiðileyfi á stjórnvöld

Steingrímur segir stjórnvöld gera margt til að örva verklegar framkvæmdir.
Steingrímur segir stjórnvöld gera margt til að örva verklegar framkvæmdir. Ernir Eyjólfsson

„Þannig að ég held að það sé best að láta staðreyndirnar tala sínu máli og þá má auðvitað hvína í þeim á sínum fundum,“ segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra um harða gagnrýni ASÍ á ríkisstjórnina. Steingrímur lítur svo á að ASÍ hafi gefið „allsherjar veiðileyfi“ á stjórnvöld. 

Máli sínu til stuðnings bendir Steingrímur á fjölþættar aðgerðir stjórnvalda til að örva atvinnulíf landsins, aðgerðir sem ASÍ verði að horfa til. 

Fara reglulega yfir stöðuna með fulltrúum launþega 

- Halldór [Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ] segir að á yfirstandandi formannafundi séu menn að undirbúa verkföll og hann átelur ríkisstjórnina harðlega fyrir að hafa ekki efnt það sem lýtur að atvinnumálum í stöðugleikasáttmálanum. Hvernig svarar þú þessari gagnrýni?

„Nú hef ég ekki séð þessar útlistanir hans en ég held að það liggi allt fyrir hvernig við höfum verið að reyna að vinna að þeim málum. Við höfum alltaf á okkar stöðugleikafundum farið yfir það og uppfært alla okkar verkefnalista.

Það er svo sem ekkert launungamál að sumt af þessu hefur reynst tafsamara en menn héldu í byrjun. Skipulagsmál í Reykjavíkurborg hafa vafist fyrir mönnum og ýmislegt fleira en engu að síður eru ýmis verkefni komin í gang, eins og Landspítalinn og önnur sem eru að hrökkva í gang, eins og samgöngumiðstöð og stækkun [flugvallarins] á Akureyri.

Við hleyptum af stað tveimur stórum samgönguframkvæmdum á ábyrgð ríkisins til þess að þær tefðust ekki frekar en þær gætu bæst við þetta síðar, þ.e.a.s. Suðurlandsvegur og Vesturlandsvegur.

Ríkisstjórnin er búin að grípa til mjög viðamikilla ráðstafanna og hefur stutt við aðgerðir til þess að skapa hér störf í sumar. Ætli það séu ekki á milli 1.300 og 1.500 störf sem verða til í verkefnum sem ríkið styður við og atvinnuleysistryggingasjóður kemur að hluta til að.

Við erum að setja í þetta all mikla fjármuni úr ríkissjóði þótt þar sé ekki um auðugan garð að gresja en við greiðum yfirleitt mótframlög á móti það sem upp á vantar [...] og við erum búin að veita ýmsum stofnunum á vegum hins opinbera fjárframlög til þess að standa undir kostnaði sem á þær lendir vegna starfanna. Þetta eru mjög viðamiklar framkvæmdir.

Við erum búin að ákveða aukaviðhaldsframkvæmdir í opinberu húsnæði um 500 milljónir í ár til viðbótar 2,7 [milljörðum] sem voru fyrir á fjárlögum þannig að það verður unnið fyrir 3,2 milljarða í viðhaldi opinberra bygginga í ár sem er mikið, jafnvel í venjulegu árferði, hvað þá við núverandi aðstæður,“ segir Steingrímur og víkur að viðhaldsframkvæmdum hjá einstaklingum.

Boðar frekari ívilnanir 

„Þá erum við enn að auka ívilnanir - sem ég geri ráð fyrir að Alþingi fallist á - vegna viðhalds og endurbóta á húsnæði þar sem við ætlum ekki bara að endurgreiða 100% virðisaukaskatt heldur gera það mönnum skattalega hagstætt að ráðast í slíkt.

Við ákváðum að setja allt að 350 milljónir í markaðsátak í ferðaþjónustu sem er hafið til þess að reyna að tryggja umsvif í ferðaþjónustu í sumar. Við höfum verið að grípa til fjölþættra verkefna af ýmsu tagi. Þannig að ég held að það sé best að láta staðreyndirnar tala sínu máli og þá má auðvitað hvína í þeim á sínum fundum.

Ef menn ræða málin uppbyggilega með rökum og horfa á staðreyndir þá verður það ekki sagt með neinum rökum að ríkisstjórnin hafi ekki verið að gera mjög mikið.“

Veit ekki hvað Halldór Grönvold á við

- Svo ég vitni aftur til Halldórs segir hann þetta orðrétt í viðtali við fréttavef Morgunblaðsins: „Menn segja líka gjarnan að það sé eins og stjórnvöld og aðrir taki okkur ekki alvarlega nema þegar á reynir í tengslum við kjarasamningagerð og þar er náttúrulega ljóst að þar getur allt orðið undir. Þá er okkar staða önnur en hún er á miðju samningstímabili.“ Hvað segirðu við þeirri gagnrýni ASÍ að stjórnvöld séu ekki að taka sambandið alvarlega?

„Ég veit ekki hvað hann á við með því maðurinn. Við erum að funda reglubundið með þessum aðilum og þeir virðast upplifa þetta samstarf þannig, sem er áhugavert í sjálfu sér, að það sé sjálfsagt mál að þeir hafi hin hörðustu orð um okkur eins og þeim lystir og gefi út allsherjar veiðileyfi á okkur. En það er aldrei ætlunin að við svörum fyrir okkur.

Ég er að biðja um að menn geti átt áfram uppbyggilegt og málefnalegt samstarf og að mínu mati klagar ekki upp á okkur í þeim efnum. Við höfum verið mjög þolinmóð í því og ekkert verið að taka það til okkar þótt þeir sendi okkur gusur. Ég læt það sem vind um eyru þjóta satt best að segja vegna þess að ég veit alveg hversu stóra verkefnið er mikilvægt, að koma landinu í gegnum þessa erfiðleika og þar munu allir tapa sameiginlega á því ef menn ekki ná að gera það með samstillta kraftana.

Það hefur nákvæmlega ekkert breyst í þeim efnum þannig að þó að það gæti kannski einhverrar þreytu í bili að þá treysti ég því að menn sjái einfaldlega að sér þegar þeir sjá hvað er hér áfram við að glíma í ríkisfjármálum og glímunni við atvinnuleysið og aðra slíka hluti. Mér sýnist nú ekki að þetta gangi betur í ýmsum löndum þar sem menn hafa misst tök á hlutunum og misst allt upp í átök. Það er nú það síðasta sem Ísland þarf á að halda.

Þannig að ég held að allir ættu horfa til sinnar ábyrgðar í því en vera ekkert alltaf að kenna einhverjum einum um. Sjaldan veldur einn þá tveir deila segir máltækið og ætli sá núningur sem hefur verið uppi í þessu sé þá ekki svolítið á bága bóga og hver og einn á að taka sitt til sín í þeim efnum. En auðvitað verður að segjast eins og er að það voru mikil vonbrigði þegar SA [Samtök atvinnulífsins] fóru út úr þessu og það hefur auðvitað valdið okkur vandræðum í framhaldinu en þar er ekki við okkur að sakast.“

Hefur gengið betur en spáð var 

- Svo ég vitni enn og aftur í Halldór segir hann orðrétt: „Menn gagnrýna ríkisstjórnina en svo sem líka pólitíska kerfið í heild sinni fyrir að vera vanmáttugt og í raun og veru ekki tilbúið til þess að takast á við þau úrlausnarefni sem eru að okkar mati langstærstu pólitísku úrlausnarefnin þessa dagana.“ Halldór tekur hér undir gagnrýni Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, á frammistöðu ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum, að hún sé ekki að fást við atvinnumálin af festu. Hvernig svarar þú þessu?

„Ég svara því þannig til að okkur hefur þrátt fyrir allt gengið betur - þótt atvinnuleysið sé mikið og tilfinnanlegt - en allar spár gengu út frá. Við enduðum ekki með nema rétt rúmlega 8% atvinnuleysi á síðasta ári. Ég geri mér vonir um að það verði að meðaltali undir 9% á þessu ári. Þannig að þrátt fyrir allt er staðan hér skárri en spár gengu út frá og það held ég að hafi meðal annars komið til með ýmsum hvetjandi aðgerðum. Við höfum náð að örva aðeins eftirspurn og hafa meiri eftirspurn í samfélaginu en annars væri.

Það er til dæmis augljóst að sú aðgerð að hækka endurgreiðslu virðisaukaskatts í 100% og hvetja til framkvæmda á sviði viðhalds og endurbóta hefur hleypt miklu lífi í þá starfsemi. Umfangið jókst á ný í nokkurn veginn það sem það var fyrir hrun.

Þá hefur útgreiðsla séreignasparnaðar tvímælalaust haft örvandi áhrif og hjálpað til. Þannig að með ýmsum slíkum ráðstöfunum og því að okkur hefur gengið almennt betur og það reyndist meiri seigla í íslenska raunhagkerfinu en menn áttu von á hefur ástandið ekki orðið verra en raun ber vitni.

Ég var að skoða nýjustu tölur frá Svíþjóð og Finnlandi þar sem atvinnuleysið er mun meira en á Íslandi og fer vaxandi. Þannig að ég held að það sé ekki ástæða til að mála allt svart í þessum efnum þó að það sé engin að gera lítið úr þessum vanda.“  

Alþýðusambandið sjái til sólar

Steingrímur heldur málsvörn sinni áfram. 

„Talandi um ríkisstjórnina bendi ég á eitt sem enginn getur frá okkur tekið en það er að hún er að fá mjög jákvæðar umsagnir frá erlendum aðilum um það hvernig við höfum tekist hér á við skulda- og ríkisfjármálavandann. 

Þá má nefna umfjöllun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í tengslum við aðra endurskoðun hans og fleiri aðila sem telja að Ísland sé komið vel á veg og hafi tekist betur en mörgum öðrum löndum að fást við kreppuna.

Þannig að menn verða þá aðeins að sjá til sólar og horfa þá líka á það sem hefur þrátt fyrir allt gengið all vel og jafnvel betur en á horfðist. Það er sjálfsagt að menn gagnrýni og haldi okkur við efnið en mér finnst nauðsynlegt að menn sjái þá alla myndina,“ segir Steingrímur sem harmar efnahagsleg áhrif eldgossins í Eyjafjallajökli.

Áhrifin af gosinu 

„Ég get sagt alveg eins og er að ef ekki hefði verið fyrir eldgosið og þau truflandi áhrif sem það hefur haft á ferðaþjónustuna, að þá var bjartsýni mín jafnt og þétt vaxandi eftir því sem á leið og eftir að við fengum aðra endurskoðun AGS.

Ég hefði talið að við hefðum frekar séð hagvöxt hérna en stöðnun í ár ef allt hefði gengið á besta veg. Þannig að mér finnst að þeir þurfi að fara að taka eftir því þessir ágætu vinir okkar þarna að það er komið vor og sólin farin að hækka á lofti og það er nú ýmislegt sem er að leggjast með okkur þrátt fyrir allt þótt annað sé erfitt,“ segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra um gagnrýni ASÍ.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður VG.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður VG. mbl.is/Heiðar Kristjánsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka