Umhverfis- og samgönguráð samþykkti í dag drög að aðgerðaáætlun til næstu þriggja ára 2011-2014 um hjólaleiðir í borginni. Þar kemur fram að tíu kílómetrum verður árlega bætt við núverandi hjólaleiðir í Reykjavík, að hraðbraut fyrir hjól verði lögð milli Laugardals og miðborgar og brú gerð fyrir hjólandi og gangandi yfir Elliðaárósa yfir í Grafarvog.
Gísli Marteinn Baldursson, formaður umhverfis- og samgönguráðs, segir í tilkynningu að samstaðan í þessum málaflokki í ráðinu hafi verið til fyrirmyndar. Allir flokkar hafi samþykkt hjólaáætlunina Hjólaborgin Reykjavík í borgarráði í febrúar síðastliðnum, og þessi þriggja ára áætlun byggi á henni.
„Þetta er mikill gleðidagur fyrir alla hjólandi Reykvíkinga, og raunar hina líka því hver einasti hjólreiðamaður er í raun að spara borginni og sjálfum sér pening,“ segir Gísli í tilkynningunni.
Árið 2010 er þegar á dagskrá að klára tvöfaldun Fossvogsstígs, gera hjólaleið á Hofsvallagötu og fjölga hjólavísum.