Lækka bílalán um 20-40%

Ótollaðir bílar í geymslu.
Ótollaðir bílar í geymslu. Ómar Óskarsson

Fjármögnunarfyrirtækið SP-fjármögnun býðst til að lækka höfuðstól erlendra bílalána og breyta þeim í verðtryggð eða óverðtryggð íslensk lán. Höfuðstólslækkunin fer eftir myntsamsetningu lánsins og hvenær það var tekið. Reiknast fulltrúum fyrirtækisins til að þetta lækki um 80% lána um 20-40%.

Meðaltalslækkunin er sögð 28% en eftirfarandi grein er gerð fyrir ákvörðun fyrirtækisins í meðfylgjandi tilkynningu:

„Með þessari lækkun tekur SP-Fjármögnun einhliða upp það ákvæði í frumvarpi félagsmálaráðherra, sem liggur fyrir á alþingi og lítur að höfuðstólslækkun erlendra lána. Þessum aðgerðum er einnig ætlað að stuðla að aukinni hreyfingu á bílamarkaðnum sem einkennst hefur af kyrrstöðu undanfarna mánuði.

Fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum í rekstri býðst að meðaltali 25% lækkun á höfuðstól lána og samninga í erlendri mynt samfara því að breyta þeim í verðtryggð eða óverðtryggð lán eða samninga í íslenskum krónum. SP-Fjármögnun býður viðskiptavinum sínum ennfremur að lengja lánstímann um 12 eða 24 mánuði, en þá gefst enn betra tækifæri til að stýra greiðslubyrði lánanna.“

Segir þar jafnframt að fyrirtækið muni ekki setja þak á hámarkslækkun höfuðstólsins. „Höfuðstólslækkunin gildir fyrir þá lántakendur sem tóku lán eða samninga fyrir 8. október 2008 og er þeim að kostnaðarlausu,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert