Reykvíkingar eru ekki hlynntir því að skattar séu hækkaðir í borginni. Samkvæmt nýrri netkönnun eru 92,5% borgarbúa andvíg hærri sköttum í höfuðborginni. 7,5 segjast hlynnt þeim.
Þetta viðhorf borgarbúa endurspeglast í stefnu þeirra átta hreyfinga sem bjóða fram í borginni en af þeim eru vinstri græn þau einu sem hyggja á hækkun skatta og annarra gjalda komist þau til valda.
Samfylking útilokar ekki hækkanir en Dagur B. Eggertsson, oddviti hennar, segist vilja komast hjá þeim. Sjálfstæðisflokkur, Framsókn, Frjálslyndir og Reykjavíkurframboðið vilja engar hækkanir.
ATHUGASEMD SETT INN KL: 09:11
Ranghermt er í frétt Morgunblaðsins að VG vilji hækka önnur gjöld en líkt og fram hefur komið þá telur flokkurinn að það eigi að nýta útsvarsheimild að fullu svo ekki þurfi að hækka önnur gjöld. Þetta er haft eftir oddvita VG í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í síðustu viku:
„Ég held að það sé alveg ljóst að borgin þarf á meiri tekjum að halda,“ segir Sóley Tómasdóttir, oddviti Vinstri-grænna. „Við teljum farsælla að það verði farið í útsvarshækkanir frekar en að við hækkum gjöld fyrir ákveðna þjónustu. Það bitnar bara á afmörkuðum hópum og þeim hópum sem mest þurfa á þjónustunni að halda.“
Hún segir að ef borgin fullnýti útsvarsheimild sína færi það borginni 700 milljón króna tekjur á ári. Ef samsvarandi upphæð eigi að ná með hærri þjónustugjöldum þurfi að hækka þau um 7,46% að jafnaði. Það væri ósanngjarnt gagnvart foreldrum barna í leik- og grunnskólum.
„Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að við fullnýtum útsvarið á kjörtímabilinu,“ segir Sóley. Það sé sanngjarnasta leiðin.
Ranghermt er í korti sem fylgdi fréttinni í Morgunblaðinu í dag að92,5% borgarbúa vilji að skattar verði hækkaðir. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.