Seðlabankinn mun fá auknar rannsóknarheimildir varðandi gjaldeyrismál og þar á meðal heimildir til að krefjast gagna í tengslum við rannsóknir á gjaldeyrisbrotum og að leggja á dagsektir berist þau gögn ekki, samkvæmt frumvarpi, sem ríkisstjórnin fjallaði um í dag.
Gert er ráð fyrir að þessar heimildir færist frá Fjármálaeftirlitinu til Seðlabankans. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði aðspurð að þessi breyting tengdist því ekki beint, að verið er að kanna hvort sameina eigi á ný Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann.