Þungt hljóð í formönnum aðildarfélaga ASÍ

Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambandsins,
Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambandsins, mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það var þungt hljóðið í formönnum aðildarfélaga ASÍ á formannafundi í dag.  Það er ljóst að erfiðir kjarasamningar fara í hönd með haustinu þar sem verkalýðshreyfingin mun nýta afl sitt til að sækja kjarabætur. Mikil gagnrýni kom fram á ríkisstjórnina fyrir ýmsar sakir en helst vegna aðgerðarleysis í atvinnumálum. Gengu sumir fundarmanna svo langt að segja ríkisstjórnina komna á endastöð, að því er segir í tilkynningu frá ASÍ.

 „Það voru einkum þrjú stef sem einkenndu umræðuna um efnahags- og atvinnumál.  Ríkisstjórnin fékk falleinkunn fyrir aðgerðaleysi í baráttunni gegn atvinnuleysi og seinagang við að koma verkefnum í gang sem lífeyrissjóðirnir eru tilbúnir að fjármagna. Þá bar nokkuð á ótta um að ríkisstjórnin myndi ráðast á millitekjuhópinn þegar hún talar hátekjuskatt. Skýrt kom fram í máli verkalýðsforingjanna að svik ríkisstjórnarinnar um hækkun persónuafsláttar nú í vetur eru geymd en ekki gleymd. 

Rætt var um kjarasamningana sem framundan eru í haust.  Kom fram í máli manna að erfiðar viðræður stæðu fyrir dyrum og mikilvægara en oftast áður að verkalýðshreyfingin standi saman.  Sameiginlegur slagkraftur hreyfingarinnar er afl sem gæti þurft að beita í kjarasamningsgerðinni. 

Í þriðja lagi var rætt um mikilvægi þess að ná fram jöfnun lífeyrisréttinda á við opinbera starfsmenn.  Brann það mál mjög heitt á mörgum fundarmönnum," segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert