Sú ákvörðun SP-fjármögnunar að bjóða höfuðstólslækkun á bílalánum mun hafa jákvæð áhrif á bílasölu í landinu að mati Özurar Lárussonar, framkvæmdastóra Bílgreinasambandsins. Söluaukningin bæti úr brýnni þörf fyrir notaðar bifreiðar í landinu. Breytingin bæti úr brýnni þörf fyrir notaða bíla.
„Það mun örugglega hafa jákvæð áhrif á bílasölu. Áður en SP-fjármögnun kom með þetta útspil vorum við farin að sjá jákvæða þróun í bílasölu. Þetta mun klárlega hjálpa til og við erum mjög ánægðir með þetta frumkvæði SP-fjármögnunnar að stíga skrefið á undan öðrum fjármögnunarfyrirtækjum og stjórnvöldum líka,“ segir Özur.
- Hvenær væntirðu sambærilegra skrefa af hálfu annarra fjármögnunarfyrirtækja?
„Ef þeir ætla að vera samkeppnishæfir hljóta þeir nú að vinna dálítið hratt úr því, myndi ég ætla.“
Aukningin 8-10% á mánuði
- Hvernig er hreyfingin í bílasölunni?
„Það var 17,5% aukning í síðustu viku frá sömu viku í fyrra. Það er búin að vera 8-10% aukning á mánuði frá áramótum frá fyrra ári. Þetta eru jákvæð teikn en ég legg áherslu á að ég er aðeins að tala um fólksbíla.“
- Hvaða markhópar eru frekar að kaupa bíl núna vegna þessara breytinga í fjármögnun?
„Bílar hafa verið yfirveðsettir og þetta breytir þeirri stöðu að fólk hefur nú tök á að losa sig við bíl eða skipta út bíl sem það hefur ekki þörf fyrir eða not fyrir lengur. Fólkið hefur verið dálítið bundið með þá bíla sem það hefur haft.“
- Bílasalar hafa kvartað undan því að það hafi skort notaða bíla á markaðinn. Munu þessar breytingar auka framboðið að þínu mati?
„Já, alveg klárlega. Fólk hefur verið í algerum fjötrum með bílana sína þannig að fólk hefur hreinlega ekki getað selt þá.“
- Hvernig verður sumarið?
„Við erum frekar bjartsýnir. Okkur finnst stemningin vera þannig. Þegar við ræðum við sölumenn í umboðunum segjast þeir orðnir varir við að fólk sé að koma meira í umboðin og skoða hvað er í boði. Það er að týnast út einn og einn bíll sem var ekki. Þannig að það er allt annað hljóð í sölumönnum í umboðunum núna en var fyrir bara hálfu ári síðan.“
Útflutningur á notuðum bílum hefur minnkað mikið
- Hvað með þann orðróm að það sé verið að flytja út mikið af bílum og að hér sé mikið af bílum í geymslum. Er eitthvað hæft í því?
„Nei. Ég hef ekki séð þá bíla. Það er löngu hætt að flytja út bíla. Sá möguleiki að fá endurgreiddan hlut af virðisaukagjaldi og vörugjaldi við útflutning rann út um áramót. Það hafa því ekki verið fluttir út bílar sem neinu nemur frá áramótum. Sá markaður er alveg dauður.
Hitt er annað mál að það er full þörf á notuðum bílum hér heima. Það hefur verið dauði í bílasölu í 2 ár. Það sárlega vantar bíla á notaða markaðinn.“
Bílaflotinn sífellt að eldast
- Bílaflotinn hefur verið að eldast er það ekki?
„Jú. Meðalaldurinn er orðinn 10,2 ár í dag. Þegar góðærið stóð sem hæst, árið 2007, var hann 9,2 ár. Samt sem áður var það hæsta meðaltal á fólksbílum í Evrópu. Meðaltalið þar er 8,5 ár.
Það er mjög slæmt að bílaflotinn sé orðinn þetta gamall, bæði út frá öryggis- og umhverfissjónarmiðum. Það er helsta keppikefli bílaframleiðenda í dag að framleiða bíla sem eyða og menga minna og eru öruggari fyrir farþega þeirra,“ segir Özur Lárusson.