Efnahags- og framfarastofnunin, OCED, segir í nýju yfirliti að greinilegur efnahagsbati sé hjá Norðurlöndunum öllum. Segir stofnunin m.a. að Ísland hafi náð umtalsverðum árangri í að fást við afleiðingar bankahrunsins haustið 2008 og hagvöxtur ætti að hefjast á ný á síðari hluta þessa árs og verða 2,3% á næsta ári. Gert er hins vegar ráð fyrir því að samdráttur á þessu ári verði 2,2%.
OECD segir, að aðgerðir stjórnvalda undanfarin misseri hafi lagt góðan grundvöll að efnahagsbata sem muni einkum stafa af aukinni einkaneyslu. Undir hana ætti að ýta fjárfesting í orkufrekum iðnaði sem fyrirhuguð sé á næsta ári.
Stofnunin segir, að ríkisstjórnin verði hins vegar að standa við markmið sín í ríkisfjármálum eins og hún hafi gert til þessa. Áfram ætti að leggja áherslu á stöðugleika gengis krónunnar og hægt verði að aflétta gjaldeyrishöftum þegar gjaldeyrisforðinn er orðinn nægur og búið að skjóta nægilega traustum stoðum undir bankakerfið.
Um hin Norðurlöndin hefur OECD þetta að segja samkvæmt yfirliti Dow Jones fréttaveitunnar: Reiknað er með 1,6% hagvexti í Svíþjóð á þessu ári og 3,2% á næsta ári en verg landsframleiðsla dróst saman í landinu um 5,1% á síðasta ári. Stofnunin telur hins vegar að beita þurfi ríkisfjármálum til að örva efnahagslífið vegna mikils atvinnuleysis, sem mældist yfir 9% í apríl.
Búist er við að norska hagkerfið vaxi um 2,1% á þessu ári og 2,9% á því næsta. Samdrátturinn í Noregi mældist 1,5% í fyrra. Einkaneysla fer vaxandi og dregið hefur úr slaka á vinnumarkaði. Ráðleggur OECD norskum stjórnvöldum því að hækka stýrivexti til að slá á verðbólguþrýsting.
Hagvöxtur í Danmörku er áætlaður 1,2% á þessu ári og 2% á því næsta en samdrátturinn nam 4,9% á síðasta ári. Fjárlagahalli er mikill í landinu en í gær kynntu stjórnvöld aðgerðir sem eiga að tryggja að sá halli fari undir 3% af vergri landsframleiðslu árið 2013.
Mikill samdráttur var í Finnlandi í fyrra eða 7,8% af vergri landsframleiðslu. Í ár spáir OECD 1,7% hagvexti og 2,5% á næsta ári. OECD segir, að Finnland verði að draga úr fjárlagahallanum vegna þess að þjóðin eldist nú hratt og það muni hafa áhrif á ríkisfjármálin á næstu árum.