„Þetta skiptir talsverðu máli. Þarna er verið að hefja ferli sem gæti endað með dómi fyrir EFTA-dómstólnum,“ segir Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra um áminningu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Fari allt á versta veg geti staða Íslands orðið mjög óþægileg. Enn sé þó hægt að leysa málið við samningaborðið.
„Vilji Íslendinga hefur auðvitað staðið til þess. Við hljótum að halda því áfram, samhliða því að vinna í þessu ferli,“ segir Gylfi.
ESA segir að Ísland hafi brotið gegn Evróputilskipun um innstæðutryggingar með því að gera greinarmun á innistæðueigendum í íslenskum útibúum bankanna og útibúum þeirra erlendis þegar gripið var til neyðarráðstafana í kjölfar bankahrunsins í október 2008.
Gylfi segir stöðuna í Icesave-deilunni vera óbreytta. „Við munum halda áfram að fá Breta og Hollendinga að samningaborðinu, en þeir hafa nú verið tregir til þess undanfarnar vikur.“
Aðspurður segir Gylfi að lítið hafi heyrst frá nýrri ríkisstjórn Bretlands varðandi málið. Það hafi þó verið einhver samskipti, bæði fyrir og eftir ríkisstjórnarskiptin. Þau hafi þó ekki leitt til þess að Bretar hafi boðist til að setjast við samningaborðið.
Gylfi sagði, að málsmeðferðin hjá ESA muni taka marga mánuði, líklegast undir ár ef ekki náist samningar við Hollendinga og Breta áður. „Þannig að er nú kannski ekki mikið sem gerist alveg á næstunni, annað en að vinna í þessu. Íslendingar munu að sjálfsögðu svara og halda sínum málstað frammi,“ segir Gylfi.
Það ætti því að vera nægt svigrúm til að ljúka málinu með samningum, áður en málið kemur til kasta EFTA-dómstólsins.
„Ef það fer þannig að við náum ekki samningum, og málið endar með dómi fyrir EFTA-dómstólnum, þá myndi það óhjákvæmilega setja okkur í óþægilega stöðu,“ sagði Gylfi.
Hann segir það vonbrigði að ESA hafi ekki tekið undir þau sjónarmið sem íslensk stjórnvöld hafi haldið fram. „Við höfum tvo mánuði til að svara þessu og síðan leggja þeir mat á svarið og ef þeir eru ekki sáttir við svörin þá halda þeir áfram með málið. Það endar þá með niðurstöðu ESA, sem gæti þá höfðað mál fyrir þessum EFTA-dómstóli.“