ESA: Ísland á að greiða vegna Icesave

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sendi í dag áminningarbréf til Íslands. Þar er komist að þeirri niðurstöðu að Ísland sé skuldbundið til að tryggja greiðslu á lágmarkstryggingu í samræmi við tilskipun um innstæðutryggingar til breskra og hollenskra sparifjáreigenda.

Fram kemur á vef ESA, að þessi tilskipun sé hluti af EES-samningnum. Samkvæmt henni hafi Íslandi borið að greiða breskum og hollenskum sparifjáreigendum 20.000 evrur í kjölfar falls Landsbankans.

Telur ESA, að samkvæmt tilskipuninni beri Ísland ábyrgð á því að innstæðueigendur í Icesave fái greiddar að lágmarki 20.000 evrur. Sú staðreynd að bresk og hollensk yfirvöld hafa greitt flestum innstæðueigendum þær lágmarksbætur breyti engu um skuldbindingar Íslands.

Fram kemur í tilkynningu ESA að íslenska ríkisstjórnin hafi sagt í bréfi tils stofnunarinnar, að hún telji, að til að fullnægja kröfum tilskipunarinnar sé nægjanlegt að setja á fót tryggingarkerfi fyrir sparifjáreigendur. Ríkisstjórn hafi einnig haldið því fram að tilskipunin eigi ekki við í algeru efnahagshruni. ESA sé ósammála þessum skilningi á tilskipunininni.

„Innstæðutryggingartilskipunin tryggir að sparifjáreigendur fái greiddar 20.000 evrur ef banki þeirra verður gjaldþrota. Öll ríki verða að sjá til þess að sparifjáreigendur njóti þeirrar verndar. Hún er nauðsynleg til þess að viðskiptavinir banka geti verið öruggir um sparifé sitt," er haft eftir Per Sanderud, forseta ESA, á vef stofnunarinnar.

Íslenskum yfirvöldum var veittur tveggja mánaða frestur til að svara áminningarbréfinu. Áminningarbréf er fyrsta skref ESA í samningsbrotamálum.

Sanderud segir, að ESA sé fullkunnugt um að Ísland, Bretland og Holland hafi reynt að semja um lausn deilunnar. Ef slíkt samkomulag náist ekki sé þörf á frekari aðgerðum af hálfu stofnunarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka