Ísland braut gegn tilskipun

Eftirlitsstofnun EFTA, (ESA) segir að Ísland hafi brotið gegn Evróputilskipun um innstæðutryggingar  með því að gera greinarmun á innistæðueigendum í íslenskum útibúum bankanna og útibúum þeirra erlendis þegar gripið var til neyðarráðstafana í kjölfar bankahrunsins í október 2008. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ESA en stofnunin hefur sent áminningarbréf til Íslands um að Ísland sé skuldbundið til að tryggja greiðslu á lágmarkstryggingu  til breskra og hollenskra sparifjáreigenda, 20.000 evrur hverjum, í kjölfar falls Landsbankans.

Fram kemur á vef ESA, að stuttu eftir fall Landsbankans hafi bresk og hollensk yfirvöld brugðist við og greitt tryggingarkerfi þeirra sparifjáreigendum. Í Bretlandi fengu um 300.000 sparifjáreigendur greiddar 4,5 milljarða punda. Samkvæmt tilskipuninni hafi Ísland verið skuldbundið til að greiða um 2,1 milljarð punda af þeirri upphæð.

Hollenski seðlabankinn greiddi 1,53 milljarð evra til 118.000 reikningseigenda og í samræmi við tilskipunina bar Ísland ábyrgð á greiðslu 1,34 milljarðs evra, að mati ESA.

„Íslensk yfirvöld gerðu greinarmun á innstæðueigendum í íslenskum útibúum og útibúum erlendis þegar gripið var til neyðarráðstafana í kjölfar bankahrunsins í október 2008. Innstæður í innlendum útibúum voru aðgengilegar þar sem þær voru færðar í nýju bankana, þ. á m. Nýja Landsbankann. Innstæðeigendur í erlendum útibúum höfðu ekki aðgang að reikningnum sínum og nutu ekki þeirrar lágmarksverndar sem tilskipunin mælir fyrir um. Tilskipunin mælir fyrir um að innstæðutryggingakerfi skuli taka til allra innstæðueigenda og heimilar þ.a.l. ekki slíka mismunum á sparifjáreigendum. Ísland braut því gegn tilskipuninni með því að tryggja ekki greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í Icesave," segir m.a. í tilkynningu ESA.

Íslensk stjórnvöld hafa tvo mánuði til að bregðast við athugasemdum ESA. Fallist ESA ekki á sjónarmið íslenskra stjórnvalda má gera ráð fyrir að stofnunin sendi frá sér rökstutt álit, en það getur verið undanfari málsmeðferðar fyrir EFTA-dómstólnum.

Vefur ESA

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka