Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, segist fagna frumkvæði SP-fjármögnunar til umbreytingar gengistryggðra bílalána. SP býður upp á að lækka höfuðstól erlendra lána, bæði til einstaklinga og fyrirtækja, og breyta þeim í verðtryggð eða óverðtryggð lán í íslenskum krónum. Er meðaltalslækkunin um 28% en hún fer eftir myntsamsetningu lánanna og hvenær þau voru tekin.
Árni Páll segir á vef félagsmálaráðuneytisins, að þetta frumkvæði sýni svo ekki verði um villst að svigrúm sé til slíkra aðgerða hjá eignaleigufyrirtækjunum.
Hann segir að lagafrumvarp, sem hann hefur lagt fram á Alþingi, muni tryggja að allir lántakendur njóti þessa sama réttar, hver sem lánveitandinn er. Falli dómur Hæstaréttar um lögmæti gengistryggðra lána á þann veg að lántakendur fái meiri rétt með þeim dómi en þeim úrræðum sem leiði af tilboðum einstakra fyrirtækja eða frumvarpi ráðherra um bílalán, muni allir lántakendur njóta þess.