SP-Fjármögnun hefur ákveðið að stíga skrefið á undan Árna Páli Árnasyni félagsmálaráðherra og taka einhliða upp ákvæði í boðuðu frumvarpi ráðherrans um höfuðstólslækkun erlendra lána, bæði til einstaklinga og fyrirtækja. Verður frá og með deginum í dag hægt að breyta lánunum í verðtryggð eða óverðtryggð í íslenskum krónum, og lengja þau um 12 eða 24 mánuði.
Áhrif þessarar ákvörðunar fara eftir myntsamsetningu lána og hvenær þau eru tekin. SP-Fjármögnun hefur reiknað það út að nærri 80% lána til einstaklinga muni lækka um 20-40% og meðaltalslækkun er um 28%. Er þessi breyting afturvirk þannig að þeir lántakendur sem höfðu nýtt sér úrræði SP, annaðhvort með lengingu eða uppgreiðslu lána, fá einnig notið lækkunar lánanna. Þannig munu þeir sem greiddu upp bílalánin eftir 8. október 2008 fá endurreikning á sínu uppgjöri.
Aðspurður segir Haraldur Ólafsson, forstöðumaður verkefna- og þjónustusviðs SP-Fjármögnunar, fyrirtækið ekki vera að setja neinn þrýsting á félagsmálaráðherra eða að frumvarpið nái eitthvað fyrr fram að ganga. Um sé að ræða sanngjarna leið og fyrirtækið hafi hvatt til þess að hún yrði farin. Ákveði allir lántakar að lækka höfuðstólinn munu nokkrir milljarðar króna fara af afskriftareikningi SP.
„Það hefur verið mikil óvissa uppi um þessi lán en við teljum okkur hafa efni á því í okkar afskriftarsjóðum að fara í þetta einhliða. Það hefur ekki strandað á okkur að fara þá leið sem ráðherra hefur boðað,“ segir Haraldur en SP er í eigu Landsbankans.
Fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum í rekstri býðst 25% lækkun á höfuðstól lána og samninga í erlendri mynt og að breyta þeim jafnframt í lán í íslenskum krónum. Er það lántakendum að kostnaðarlausu, þ.e. þeim sem tóku lán eftir 8. október 2008.
„SP-Fjármögnun notast við sömu reikniformúlu á lækkuninni og er í boðuðu frumvarpi, án þess að setja þak á lækkunina eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. „Sá aðili sem kemur til með að fá meiri lækkun en þrjár milljónir er ekkert endilega í betri málum en sá sem fær minni lækkun. Það er allur gangur á því og fer eftir myntsamsetningu lánsins og hvenær það er tekið,“ segir Haraldur. Hægt verður að sækja um höfuðstólslækkunina á vefsíðu SP. Með veflykli, sem sendur verður í heimabanka, kemst lántaki inn á lokað svæði á vef SP.