Sumarleyfi tefja uppbyggingu

Fyrstu kerskálar álvers Norðuráls í Helguvík. Jón Helgi telur ríkisstjórnina …
Fyrstu kerskálar álvers Norðuráls í Helguvík. Jón Helgi telur ríkisstjórnina standa í vegi álversframkvæmda á Bakka. Rax / Ragnar Axelsson

„Menn urðu fyrir miklum vonbrigðum með að ráðherrann skyldi ekki gefa sér tíma til að ræða við heimamenn um framvindu verkefnisins,“ segir Jón Helgi Björnsson, oddviti sjálfstæðismanna í Norðurþingi, um fund iðnaðarráðherra í bænum í gær. Sumarleyfi opinberra starfsmanna tefji uppbyggingu.

Eins og rakið hefur verið á fréttavef Morgunblaðsins hefur Gunnlaugur Stefánsson, forseti bæjarstjórnar Norðurþings, gagnrýnt stjórnvöld harðlega fyrir seinagang í að stuðla að atvinnuuppbyggingu á svæðinu og er þá einkum horft til hugsanlegs álvers Alcoa á Bakka.

Jón Helgi segir þá framkvæmd hafa verið til umræðu á fundinum.

„Því miður upplifðu menn fundinn sem endurtekningu á fundi með Þórunni Sveinbjarnardóttur sem haldinn var fyrir tæplega tveim árum. Menn voru komnir á fund til að ræða mál sem skiptir samfélagið gríðarlegu máli og fengu engin svör. Jafnvel þótt ráðherrann hefði haft fá svör þá hefðu menn virt það við hann ef hann hefði gefið sér tíma til að ræða málinn til fullnustu við heimamenn. Þarna voru líka allir þingmenn Samfylkingarinnar í kjördæminu sem hefðu auðveldlega getað hlaupið í skarðið ef ráðherrann var svo tímabundinn.“

Stöðugar hindranir stjórnvalda

Hann gagnrýnir stjórnvöld harðlega fyrir að hafa staðið í vegi álversframkvæmda.

„Almennt eru menn brenndir af því að hafa þetta gríðastóra tækifæri fyrir framan sig og þurfa sífellt að berjast við hindranir frá stjórnvöldum. Bara til að nefna dæmi þá fengu Þeistareykir ehf bréf frá Skipulagsstjóra fyrir viku þar sem kom fram hjá honum að afgreiðslu sameiginlegs mats myndi frestast fram yfir 4 vikna umsagnarfrest stofnunarinnar vegna sumarleyfa starfsfólks.

Þetta er nú ekki beint dæmi um að ríkisvaldið vilji keyra uppbyggingu hér áfram af fullu afli. Ef það er þannig að ríkisstjórnin getur ekki hugsað sér álver sem kost þá er heiðarlegt að segja það beint út en vera ekki með heilt samfélag sem einhver ginningarfífl. Ég er einnig klár á að biðlund heimamanna væri meiri ef fyrir lægi klár samningur um að orkan yrði nýtt í heimahéraði ekki bara viljayfirlýsing um notkun hennar.“

Jón Helgi Björnsson, oddviti Sjálfstæðisflokks í Norðurþingi.
Jón Helgi Björnsson, oddviti Sjálfstæðisflokks í Norðurþingi. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka