Fuglar hröktu kisu ofan af þaki

Mávar gera aðsúg að kisa á þakinu.
Mávar gera aðsúg að kisa á þakinu. vf.is/Hilmar Bragi

Sannkallaður ofurköttur snéri bæði á lögreglu og slökkvilið sem hugðist bjarga honum ofan af húsþaki í Keflavík nú í kvöld. Fram kemur á vef Víkurfrétta, að kötturinn virðist hafa hæfileika kóngulóarmannsins og geti hlaupið bæði upp og niður húsveggi. Honum var hins vegar ekkert um starra og máva sem gerðu að honum aðsúg.

Lögreglunni á Suðurnesjum barst í kvöld tilkynning um að köttur væri fastur uppi á húsþaki við Vallargötu 14 í Keflavík.  Á þakinu stóð kisi vaktina við inngang að starrahreiðri og hafði greinilega hugsað sér að næla í bráð úr hreiðrinu. Heyra mátti í nágrenninu að starrarnir voru síður en svo sáttir við heimsókn kisu.

Niðri beið lögreglan eftir aðstoð slökkviliðs Brunavarna Suðurnesja sem kom með körfubíl á staðinn til að komast upp á þakið.

Þegar körfubíllinn kom á staðinn höfðu starrarnir í hverfinu kallað á aðstoð máva og sveimuðu þrír mávar yfir húsinu. Einn þeirra gerði atlögu að kisa og naut aðstoðar starra.

Þegar körfubíll slökkviliðsins stóð traustum fótum og bóman tók að rísa til himins gerði mávurinn hins vegar lokaatlögu að kisa sem brást við með því að hlaupa fram af húsþakinu og hljóp niður eftir húsveggnum og undir nálægan bíl.

Fram kemur á vef Víkurfrétta, að það sé ráðgáta hvernig kötturinn komst upp á þak hússins sem er hátt og erfitt að ímynda sér hvar uppgönguleiðin var.

Vefur Víkurfrétta

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka