Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri fjármögnunarfyrirtækisins Lýsingar hf., segir að fyrirtækið ætli að bíða átekta eftir frumvarpi félagsmálaráðherra um lækkun bílalána í erlendri mynt og að lögin verði samþykkt. „Þá sitja allir við sama borð og við förum eftir þeim lögum sem verða sett,“ segir hann.
Magnús Gunnarsson, framkvæmdastjóri fjármögnunarfyrirtækisins Avant hf., segir að Avant hafi skoðað hvað hægt væri að gera í stöðunni, drög að frumvarpi liggi fyrir og síðan falli stóri dómur um lögmæti erlendra lána í Hæstarétti. Ekki sé ráðlegt að grípa til einhverra aðgerða nú og þurfa að snúa við í miðri á eftir nokkrar vikur eða þegar niðurstaða Hæstaréttar liggur fyrir.
Því hefði Avant ákveðið að bíða átekta, staldra við, skoða stóru myndina og taka síðan ákvarðanir í framhaldi af því. Almennt geti fólk gert ráð fyrir því að fjármögnunarfyrirtækin komi til móts við viðskiptavini sína, þannig að þeir beri ekki skaða af því að vera hjá einu fyrirtæki frekar en öðru, en ótal spurningar brenni á öllum viðkomandi.
Fljótlega verða tekin fyrir í Hæstarétti tvö mál um lögmæti erlendra lána. Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra segir að frumvarpið um lækkun bílalána í erlendri mynt sé ótengt þessum málum. Feli niðurstaða dóms Hæstaréttar í sér frekari rétt fyrir lántakendur njóti þeir hans og ef ekki tryggi frumvarpið þeim ákveðinn rétt.