Hæstiréttur dæmdi í dag 22 ára gamlan karlmann í hálfs árs skilorðsbundið fangelsi fyrir að slá danskan sjóliða með glasi í höfuðið á nýársnótt árið 2008 framan við bar við Austurvöll í Reykjavík.
Við höggið skarst slagæð í sundur framan við eyrað og Daninn missti mikið blóð. Í héraðsdómi var haft eftir læknum að um hafi verið að ræða alvarlega slagæðablæðingu og Daninn sagðist hafa heyrt það á slysadeildinni, að hann hefði misst um lítra af blóði.
Daninn sagði fyrir dómi, að hann hefði verið að skemmta sér ásamt félögum sínum en þeir voru sjóliðar á dönsku varðskipi, sem hér var statt. Sagðist hann hafa verið að reykja utan við Thorvaldsen bar þegar gestur af staðnum gekk að honum og sló hann fyrirvaralaust með bjórglasi í höfuðið. Glasið brotnaði við höggið.
Dyraverðir á staðnum urðu vitni að því sem gerðist og yfirbuguðu þeir árásarmanninn og vin hans, sem kom aðvífandi og reyndi frelsa hann. Lögregla kom síðan og handtók mennina tvo.
Sá sem ákærður var fyrir árásina þverneitaði að hafa verið að verki og sagðist hafa verið að reykja fyrir utan skemmtistaðinn Nasa þegar dyraverðir réðust fyrirvaralaust á hann. Héraðsdómi þótti hins vegar sannað með framburði dyravarðanna og Danans, að dyraverðirnir hefðu verið með réttan árásarmann í tökum þegar lögreglu bar að garði. Hæstiréttur tók undir það.
Héraðsdómur dæmdi manninn í 6 mánaða fangelsi, þar af þrjá mánuði skilorðsbundið, en Hæstiréttur mildaði dóminn í ljósi þess að það dróst í eitt ár að gefa út ákæru og einnig var tekið tillit til ungs aldurs mannsins og þess að hann hafði ekki gerst sekur áður um lagabrot.