Vildu ráða í á annað þúsund störf

Arkitektanemar að störfum í Hugmyndahúsinu en það er frumkvöðlasetur Háskólans …
Arkitektanemar að störfum í Hugmyndahúsinu en það er frumkvöðlasetur Háskólans í Reykjavík og Listaháskóla Íslands. mbl.is/Golli

Umsóknarfrestur um 856 tímabundin störf sem námsmönnum og atvinnuleitendum stendur til boða er lokið. Mun fleiri sóttu um störfin heldur en í boði eru. Eins vildu fyrirtæki og stofnanir sem taka þátt í verkefninu fá starfsmenn í mun fleiri störf en þau höfðu kost á eða á annað þúsund. Hins vegar voru störfin takmörkuð við 856 og því ekki hægt að verða við óskum vinnuveitendanna að fullu.

Meðal annars vildu stofnanir innan Háskóla Íslands ráða mun fleiri heldur en kom í hlut skólans. 

Störfin eru hluti af sérstöku atvinnuátaki ríkisstjórnarinnar og er stefnt að því að ljúka ráðningum sem fyrst. Ekki liggur ljóst fyrir hvað verður gert varðandi þá sem sóttu um en fá ekki. 

Fjölmörg fyrirtæki og stofnanir taka þátt í átaksverkefninu og leggja til aðstöðu, efniskostnað og verkstjórn en fá stuðning til greiðslu launa. Atvinnuleysistryggingasjóður styrkir verkefnið um 250 milljónir króna og ríkisstjórnin leggur auk þess til 106 milljónir til að tryggja að hægt sé að greiða laun sem samræmast kjarasamningum sem gilda um viðkomandi störf. Að auki munu fjölmörg sveitarfélög ráða í fjölda starfa með stuðningi Vinnumálastofnunar, að því er fram kemur á vef félagsmálaráðuneytisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert