Fyrstu nauðungaruppboð fasteigna þeirra sem fengið hafa frest samkvæmt bráðabirgðaákvæði laga um nauðungarsölu munu fara fram í byrjun júní.
Í Reykjavík liggur fyrir að allt að fjögur mál af þessu tagi munu verða tekin fyrir á degi hverjum hjá sýslumanni í júní en í Hafnarfirði verða aðeins nokkrar fasteignir boðnar upp í júní. Í ágúst eru fleiri nauðungarsölur á dagskrá.
Lögin heimila mest þriggja mánaða frest og er þessi frestur um það bil að renna út hjá þeim sem fyrstum var veittur fresturinn. Ákvæðið nær aðeins til eigna sem fólk heldur heimili sitt á, hefur skráð lögheimili á og eru samkvæmt skipulagi ætlaðar til búsetu.