„Það er töluverður niðurskurður bæði á þessu ári og í pípunum fyrir næsta ár, þannig að það er verið að opna sem flesta samninga,“ segir Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra.
Vísar hún þar til þess að í stað þess að framlengja sjálfkrafa samninga við annars vegar Læknavaktina og hins vegar heimilislækna utan heilsugæslustöðva óbreytta um eitt ár hafi ráðherra ákveðið að gera samninga til styttri tíma. Þannig var samningur heimilislækna sem rann út um síðustu mánaðamót framlengdur til áramóta og það sama standi til að gera með samninginn við Læknavaktina sem rennur út um næstu mánaðamót.
Að sögn Álfheiðar gefst núna mjög góður tími til áramóta til þess að ræða við þjónustuaðila heilbrigðisráðuneytisins á höfuðborgarsvæðinu sem starfa við hlið heilsugæslunnar um hvernig hægt sé að ná fram hagræðingu og sparnaði til þess að koma til móts við hagræðingarkröfur þessa árs og næsta árs samkvæmt fjárlögum.
Bendir hún á að í samræmi við hagræðingarkröfuna á fjárlögum ársins 2010 hafi allir þjónustusamningar heilbrigðiskerfisins við aðra en sérfræðilækna lækkað um 6,7%. „Rammarnir fyrir næsta ár hafa enn ekki verið gefnir út, en ég er að vona að það verði minni niðurskurður í heilbrigðisþjónustunni heldur en annars staðar,“ segir Álfheiður og telur ekki ólíklegt að krafan verði um 5-7% sparnað í heilbrigðiskerfinu á árinu 2011.
Álfheiður segir það ekkert launungarmál að vilji sé til að efla heilsugæsluna almennt í heilsugæslustöðvunum. „Í því er m.a. falið að efla vaktþjónustu í hverfunum hjá viðkomandi heilsugæslulækni. Hvort og hvenær það markmið næst er hins vegar enn óráðið,“ segir Álfheiður en bendir á að unnið sé að málinu innan ráðuneytisins.