Viðbúið er að fjöldi útgerðarfyrirtækja neyðist til að leita nauðasamninga við kröfuhafa sína, óháð því hvort til fyrningar aflaheimilda kemur eða ekki.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í umsögn Jóns Steinssonar, hagfræðings, um greinargerðir sem unnar voru fyrir starfshóp sjávarútvegsráðherra um fyrirhugaðar breytingar á fiskveiðikerfinu.
Jón leggur áherslu á það að gerður sé greinarmunur á áhrifum fyrningar á útgerðarfyrirtæki eins og þau standa í dag og hvernig þau stæðu eftir fjárhagslega endurskipulagningu. Útgerðir hafi „haft hvata til þess að veikja efnahagsreikning sinn með því að taka fé út úr rekstrinum til að passa að efnahagur þeirra standi nægilega tæpt til að stjórnvöld veigri sér við að innkalla aflahlutdeildir“, segir Jón í umsögn sinni.