Segir Steinunni marka spor í sögunni

Skúli Helgason
Skúli Helgason

Skúli Helgason, þingmaður Samfylkingarinnar, segir á vef sínum, að Steinunn Valdís Óskarsdóttir hafi markað spor í sögunni með því að segja af sér þingmennsku, fyrst allra stjórnmálamanna eftir bankahrunið. 

„Með ákvörðun sinni leggur hún sitt af mörkum til þeirrar tiltektar sem þarf að eiga sér stað í íslenskum stjórnmálum, jafnt í Samfylkingunni sem annars staðar.  Við og fleiri þurfum að taka okkur í gegn hvað varðar vinnubrögð, mannaráðningar, aðferðir við að raða á framboðslista og fjármögnun stjórnmálabaráttunnar. 

Samfylkingin á að ganga á undan með góðu fordæmi og setja kjörnum fulltrúum siðareglur, m.a. um samskipti og tengsl við fyrirtæki og aðra hagsmunaaðila.  Steinunn er fyrsti stjórnmálamaðurinn sem axlar ábyrgð í tengslum við styrkjaumræðuna.

Aðrir frambjóðendur, ekki síst Sjálfstæðisflokksins, sem þegið hafa hæstu styrkina í gegnum tíðina hljóta nú að hugsa sinn gang.  Það er líka umhugsunarefni fyrir kjósendur í Reykjavík að innan við helmingur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins hefur sinnt kalli Ríkisendurskoðunar um að upplýsa um fjármögnun prófkjörsbaráttu sinnar árið 2006. 

Allir borgarfulltrúar Samfylkingarinnar skiluðu inn uppgjöri með skilmerkilegum upplýsingum um tekjur og gjöld.  Á sama hátt koma ekki fram neinar upplýsingar í uppgjörum sitjandi þingmanna Sjálfstæðisflokksins um hvaða fyrirtæki styrktu prófkjörsbaráttu þeirra fyrir þingkosningar 2007.  Allir bera þeir við óskum viðkomandi fyrirtækja um nafnleynd," skrifar Skúli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert