Væta fyrir sunnan - þurrt fyrir norðan

Borgarbúar sem og aðrir góðir gestir munu eflaust fjölmenna í …
Borgarbúar sem og aðrir góðir gestir munu eflaust fjölmenna í Nauthólsvík í sumar. mbl.is/Júlíus

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur spáir því að sumarið verði vætusamara en það hafi verið undanfarin ár um landið sunnan- og vestanvert. Það verði hins vegar þurrara og hlýrra norðan- og austanlands.

„Ef það er minna um þessa norðaustanáttir þá leiðir það líkum að því að þokunni og hafgolunni sé haldið frá. Þá fáum við fleiri væna og góða sumardaga, sem íbúar - sérstaklega á Austurlandi - hafa saknað undanfarin sumur,“ segir Einar.

Spáin byggir á niðurstöðum bandarískra og evrópskra veðurfræðilíkana til næstu þriggja mánaða. Að sögn Einars eru þær nokkuð samhljóða varðandi veðrið í sumar að þessu sinni. Einar slær hins vegar niður þann varnagla að gera verði ráð fyrir sveiflum, sem eigi sér ávallt stað. Spár geti að sjálfssögðu brugðist.  

Einar segir að niðurstöðurnar bendi til þess að lofþrýstingur verði heldur lægri yfir landinu vestan- og suðvestanverðu í sumar en að meðaltali. Hitafrávik sé jafnframt mikið. Hann bendir á að sjórinn í Grænlandshafi og alveg að Nýfundnalandi sé markvert hlýrri en í Atlantshafi.

Kaldur sjór sé við Azoreyjar og til vesturs, alveg að Mexíkóflóa.

„Þessi hitafrávik í sjónum hafa áhrif á þrýstifarið og þar með gangi lægða hérna við land,“ segir Einar. Yfir þessum hlýja sjó við landið suðvestanvert sé loftið jafnframt markvert hlýrra en meðaltalið segi til um. Þessi hlýindi muni ná til Íslands.

„Við getum verið að tala um að hitinn, almennt séð á landinu, verði einni til einni og hálfri gráðu hærri heldur meðtalið,“ segir Einar og bætir við að þarna sé um að ræða annað viðmiðunartímabil en það hefðbundna 30 ára meðaltal sem nái frá 1961 til 1990. „Þetta er styttra tímabil sem er heldur nær okkur,“ segir hann.

Þessi þrýstifrávik þýði að það verði meira um sunnan- og suðvestanáttir í sumar á kostnað austan- og norðaustanáttar. „Því er spáð að úrkoma verði ívið meiri en í meðallagi, þá sérstaklega um sunnanvert landið. Það kemur alveg heim og saman við þessi þrýstifrávik.“

Ekki sé að sjá að það verði nein sérstök frávik hvað úrkomu varðar fyrir landið norðan- og austanlands. Hún verði líklega nálægt meðallagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert