Högg á kannabismarkaðinn

Kannabisræktun sem stöðvuð var á síðasta ári.
Kannabisræktun sem stöðvuð var á síðasta ári. Kristinn Ingvarsson

Lögregla lagði hald á um fjögur hundruð kannabisplöntur í gærdag, flestar á lokastigi ræktunar, og vel á annað kíló af tilbúnu maríjúana en gerð var rassía í fimm íbúðir í austurhluta Reykjavíkurborgar. Yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglu höfuðborgarsvæðisins segir lögreglu hvergi nærri hætta.

Íbúðirnar fimm voru í Grafarvogi og Grafarholti. Í þremur þeirra voru kannabisplöntur ræktaðar og í einni hafði verið komið fyrir sérstökum, vel földum, inngangi að ræktuninni. Allt í allt fundust um fjögur hundruð plöntur sem voru við það að fara út á kannabismarkaðinn. Í þremur íbúðum fannst jafnframt tilbúið kannabisefni, og eitthvað af þýfi auk gróðurhúsalampa og annars búnaðar sem fylgir kannabisræktunum.

Sex karlar á þrítugs- og fertugsaldri voru handteknir í tengslum við aðgerðir lögreglu og teljast málin öll upplýst. Mennirnir hafa allir komið við sögu lögreglu áður.

Markaðurinn jafnaði sig á nýjan leik

Karl Steinar Valsson, yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglu höfuðborgarsvæðisins, segir aðgerðir gærdagsins ekki endilega til marks um aukna áherslu á kannabisræktanir á nýjan leik. „Þetta kemur í bylgjum eftir því sem við höfum tíma í þetta. En við erum hvergi nærri hættir.“

Að mati Karls Steinars er eftirspurn eftir maríjúana jafn mikil og verið hefur undanfarin ár. Þó svo framboðið hafi minnkað við umfangsmiklar aðgerðir á síðasta ári – og verð þar af leiðandi hækkað – hefur markaðurinn jafnað sig á nýjan leik og virðist sem framboð af maríjúana sé þokkalega mikið.

Til viðbótar húsleitum lögreglu var ökumaður á þrítugsaldri stöðvaður á sama svæði, en í bíl hans fundust um fimmtíu grömm af kannabisefnum sem ætluð voru til sölu. Í síðustu viku var gerð húsleit hjá sama manni og fundust þá um þrjú hundruð grömm af fíkniefnum, mestmegnis kannabisefni.

Framboð á kókaíni minnkaði til muna

Fíkniefnamarkaðurinn að öðru leyti á undir högg að sækja. Framboð á kókaíni hefur minnkað mikið að undanförnu eða frá því á átta einstaklingar voru hnepptir í gæsluvarðhald í síðasta mánuði vegna gruns um umfangsmikinn innflutning á kókaíni til landsins.

Sú rannsókn er umfangsmikil og að henni koma lögregluliðin á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum sem hafa í sameiningu rannsakað málið en einnig aðstoða embætti ríkislögreglustjóra, tollyfirvöld og löggæslustofnun Evrópusambandsins, Europol. Rannsókn málsins miðar vel en í tengslum við hana hefur verið lagt hald á tæplega átta milljónir króna í reiðufé og skartgripi að verðmæti um tvær milljónir. Umrædd verðmæti fundust í bankahólfum sem tilheyra málsaðilum.

Kókaín
Kókaín AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert