Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði á Alþingi í dag að samkvæmt nýjum upplýsingum frá Vinnumálastofnunar hafi atvinnuleysið í síðasta mánuði verið undir 9% í fyrsta skipti frá áramótum. Sagði Steingrímur að þetta væri vísbending um að atvinnuleysi fari nú minnkandi í vor og sumar.
Þetta kom fram í utandagskrárumræðu, sem Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hóf í dag um stöðu atvinnumála. Sagði hún þá stöðu grafalvarlega og allir verpi taka höndum saman og hafna atvinnuleysi. Þetta hefði komið skýrt fram í sveitarstjórnakosningunum á laugardag, þar sem víða hefði verið kosið um atvinnumál.
Ragnheiður Elín sagði, að innbyrðis ágreiningur og kreddur innan ríkisstjórnarinnar stæðu framþróun fyrir þrifum og misvísandi yfirlýsingar ríkisstjórnarflokkanna um atvinnumál væru beinlínis skaðlegar.
Sagði Ragnheiður Elín, að greiðasta leiðin til að skapa verðmæti og hagvöxt liggi um fjárfestingar í fyrirtæjum og auknum útflutningi. Stjórnvöld ættu að hvetja fjárfesta og útflytjendur en ekki letja þá eins og dæmi væru um. Sagði hún, að beinlínis hefðu verið unnin skemmdarverk á mörgum mikilvægum atvinnutækifærum á Suðurnesjum, sem ekki snúist um álver, svo sem á sviði heilbrigðismála og flugrekstrar.
„Suðurnesjamenn höfnuðu pólitík Vinstri grænna um helgina og íbúar tveggja hreppa við Neðri-Þjórsá höfnuðu líka pólitík Vinstri grænna og sendu þau skilaboð að mikill meirihluti þeirra vilji nota orkuna á svæðinu til uppbyggingar," sagði Ragnheiður Elín. „Ég held að ef við eigum að endurreisa þjóðarhag á næstu árum þurfi miklu meiri hagvöxt en spár gera ráð fyrir. Ef Vinstri grænir eru ekki reiðubúnir til að koma með okkur í það verkefni heiti ég á aðra flokka á Alþingi að taka höndum saman með okkur, sem vilja gera það, og skilja Vinstri græna eftir í fjötrum öfga og aðgerðarleysis."
Steingrímur J. Sigfússon, sagðist skilja, að margir teldu að ríkisstjórnin hefði ekkert gert í atvinnumálum ef þeir hefðu sama skilning á því orði og Ragnheiður Elín. Hún hefði ekki talað um neitt annað en álver og stóriðju. Staðreyndin væri hins vegar sú, að ríkisstjórnin hefði gripið til fjölþættra aðgerða til að takast á við þetta ástand að viðbættum fjölmörgum virkniaðgerðum fyrir það fólk, sem er atvinnulaust og þurfi að styðja.
„Þróun efnahagsmála er í rétta átt, gengi krónunnar er að styrkjast, vextir eru að lækka, dagurinn í dag markar stór tímamót og mun hafa jákvæð áhrif," sagði Steingrímur og vísaði til sölu Seðlabankans á skuldabréfum til lífeyrissjóða. Engin tilefni væru því til þess, að vera með sérstakan bölmóð þótt ástandið væri erfitt.