Hrikalegir atburðir

AP

„Ég held það sé óhætt að segja að það sé samdóma álit allra að þetta séu hrikalegir atburðir sem eru þarna að eiga sér stað eina ferðina enn. Spurningin er hins vegar hvað best sé að gera til þess að sýna mótmæli okkar með sem áhrifaríkustum hætti,“ segir Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, sem sæti á í utanríkismálanefnd.

Nefndin kom saman til fundar fyrr í kvöld til að ræða árásir Ísraela á skipalest á leið til Gaza í nótt með hjálpargögn, en a.m.k. 19 manns létu lífið og tugir manna særðust. Að sögn Ögmundar komst nefndin ekki að neinni niðurstöðu um málið í kvöld en fundinum verður fram haldið í hádeginu á morgun og að honum loknum megi búast við formlegum viðbrögðum. Málið verði síðan rætt utandagskrár á Alþingi kl. 14.00.

Að sögn Ögmundar mætti utanríkisráðherra á fund nefndarinnar. „Hann fór yfir stöðuna, en ráðuneytið hefur fylgst með málinu í dag og viðbrögðum annarra þjóða,“ segir Ögmundur.

Eins og fram kom fyrr í dag fordæmdi Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, árásina. Tók hann einnig undir kröfur, m.a. Evrópusambandsins og Sameinuðu þjóðanna, að árásin verði rannsökuð í þaula enda ekki hægt að þola að Ísraelar beiti ítrekað valdi með fyrrgreindum hætti.

Spurður hvort til greina komi að Ísland fordæmi árásirnar og slíti stjórnmálasambandi við Ísrael í mótmælaskyni segir Ögmundur að það hafi verið meðal þess sem rætt hafi verið án þess að sú umræða hafi verið til lykta leidd. „Við munum ræða þennan möguleika á fundinum á morgun og ljúka umræðunni,“ segir Ögmundur.

„Ég held það sé mjög mikilvægt að við sýnum þverpólitíska samstöðu okkar í þessu máli. Það finnst mér vera markmið í sjálfu sér, að koma sameinuð fram í málinu og það er það sem við erum að ræða,“ segir Ögmundur.


Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka