Nokkuð hefur borið á því að farið hefur verið inn um opna glugga á hótelum og gistiheimilum að degi til í miðborginni að undanförnu og stolið dýrum búnaði frá ferðamönnum, sem þar hafa dvalið. Einnig hefur borið á því að veskjum kvenfólks hafi verið stolið á skemmtistöðum í miðborginni.
Konur haldið fast í veskið
Af þessum tilefnum beinir lögreglan á svæðisstöð 5 (Miðborg, Vesturbær og Seltjarnarnes) því annarsvegar til forráðamanna hótela og gististaða að láta loka gluggum jarðhæða þegar gestir dvelja ekki í herbergjum sínum og hinsvegar til kvenfólks sem er að skemmta sér í miðborginni að skilja ekki við sig veski með verðmætum í inni á veitingahúsunum.