Þingmenn breyti tungutaki

Steinunn Valdís ávarpaði Alþingi í upphafi þingfundar.
Steinunn Valdís ávarpaði Alþingi í upphafi þingfundar.

Steinunn Valdís Óskardóttir sagði í dag af sér þingmennsku fyrir Samfylkinguna í Reykjavík eins og hún boðaði sl. fimmtudag. Steinunn Valdís ávarpaði Alþingi í upphafi þingfundar í dag og tilkynnti þetta. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, þakkaði Steinunni Valdísi fyrir hennar störf á þingi.

Steinunn Valdís sagðist hafa tíundað ástæður afsagnarinnar í yfirlýsingu í síðustu viku. Sagðist hún vilja nota tækifærið að hvetja þingheim til að taka til endurskoðunar vinnubrögð og vinnulag og  ekki síst það tungutak, sem allt of oft tíðkist í þingsalnum.

„Þeirra sem starfa í stjórnmálum, bíður vandasamt verkefni. Það felst í að gera þær umbætur í samfélaginu, sem líklegar eru til að lækna sárin sem hrunið hefur valdið. Til að svo megi verða þarf víða að brjóta odd af oflæti og leita eftir megni að því sem sameinar okkur  sem manneskjur fremur en því sem sundrar," sagði Steinunn Valdís. Með það fyrir augum vil ég leggja mitt lóð á vogarskálarnar og stíga til hliðar í þeirri von, að kraftar okkar allra beinist fyrst og fremst að því að byggja upp réttlátara og betra samfélag."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert