Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í utanríkismálanefnd Alþingis fordæma árás Ísraelsmanna á skipalest með hjálpargögn sem fara áttu til Gasasvæðisins.
Í tilkynningu frá þeim Einari K. Guðfinnssyni og Ragnheiði Elínu Árnadóttur, fulltrúum flokksins í utanríkismálanefnd, kemur fram að þau styðja ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna frá því í nótt um að skipunum, sem tekin voru herskildi verði sleppt, farþegum og áhöfn veitt frelsi og að sá varningur, sem ætlað var að bærist til hinna hrjáðu íbúa Gasasvæðisins verði þegar fluttur á áfangastað. Ennfremur hafi ályktun öryggisráðsins falið í sér kröfu um tafarlausa alþjóðlega rannsókn á árásinni.
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins telja að slit stjórnmálasambands og viðskiptaþvinganir gagnvart Ísrael muni ekki verða til þess að auðvelda slíka lausn mála. Þau geti því ekki fallist á ályktun meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis, sem telji rétt að ganga lengra en nokkurt annað ríki eða alþjóðasamtök hafi ákveðið að gera vegna þessa atburðar, sem þó hafi verið harðlega fordæmdur á alþjóðavettvangi.