Föst á Sprengisandi

Björgunarsveitarmenn voru sex klukkutíma að ná til fólksins
Björgunarsveitarmenn voru sex klukkutíma að ná til fólksins Ómar Óskarsson

Björgunarsveitin Þingey á Húsavík var kölluð út um miðnættið til að aðstoða íslenskt par sem var á ferðalagi um Sprengisand og hafði fest bílinn í aurbleytu. Sprengisandsleið er enn lokuð enda nokkur snjór á hálendinu og jarðvegurinn mjög blautur.

Það tók björgunarsveitarmenn sex klukkutíma að komast á staðinn. Ekkert amaði að fólkinu en þau höfðu ekið Sprengisand sunnanmegin frá og voru komin norður fyrir hann miðjan þegar þau festu bílinn, sem er pallbíll. Kváðust þau hafa haldið að Sprengisandsleið hefði þegar opnað og ekki orðið vör við neinar merkingar um lokun er þau lögðu á hálendið. Lögreglan á Húsavík rannsakar atvikið.

Að sögn Bjarna Jóns Finnssonar, verkstjóra hjá Vegagerðinni í Vík, eiga að vera augljósar merkingar um að Sprengisandur sé lokaður. „Það á að vera skilti þvert yfir veginn, ef það er farið þá hlýtur einhver að hafa fjarlægt það. Fólk þyrfti að taka krók framhjá skiltinu til að geta ekið þarna svo mér finnst ótrúlegt að það gæti farið framhjá nokkrum ef skiltið er þarna á annað borð.“

Venjan er að Sprengisandsleið sé lokuð a.m.k. fram undir miðjan júní, að sögn Bjarna Jóns. Fyrir utan lokunarmerkingar er hægt að leita upplýsinga um hálendisvegi á vef Vegagerðarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert