Hlýr maímánuður

Afar sólríkt var í Reykjavík síðari hluta maí.
Afar sólríkt var í Reykjavík síðari hluta maí. mbl.is/Ómar

Mánuðurinn var hlýr, hægviðrasamur og fremur þurr. Fram kemur í tíðarfarsyfirliti á vef Veðurstofunnar, að meðalhiti í Reykjavík mældist 8,2 stig og er það 1,9 stigi ofan meðallags. Kuldar voru þó til ama á norðaustur- og austurhluta landsins um tíma.

Ívið hlýrra var í Reykjavík maí 2008 en nú en þessir tveir maímánuðir eru þeir hlýjustu frá 1960 í Reykjavík.

Á Akureyri var meðalhitinn 6,5 stig, 1 stigi ofan meðallags. Hlýrra var í maí á Akureyri, bæði í fyrra og 2008.

Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 7,3 stig, 1 stigi ofan meðallags eins og á Akureyri. Á Hveravöllum var meðalhitinn 3,9 stig og er það 3,3 stigum ofan meðallags. Aldrei hefur verið svo hlýtt í maí á Hveravöllum, en mælingar í maí ná aftur til 1966.

Hæsti hiti í mánuðinum mældist í Skaftafelli þann 5., 21,7 stig. Þetta er hæsti hiti sem mælst hefur á landinu 5. maí, eldra met var frá Teigarhorni 1938. Á mannaðri stöð mældist hiti hæstur á Hæli í Hreppum á hvítasunnudag, 20,5 stig.

Lægsti hiti mánaðarins mældist þann 1. á Brúarjökli, -15,2 stig. Lægstur hiti í byggð mældist á mönnuðu stöðinni í Miðfjarðarnesi hinn 1., -8,9 stig, þar varð hiti einnig lægstur á sjálfvirkri stöð í byggð, -8,3, sama dag.

Lægsti meðalhiti mánaðarins á sjálfvirkri stöð mældist á Gagnheiði (í 949 m hæð yfir sjó), -0,75 stig, en hæstur á Stjórnarsandi við Kirkjubæjarklaustur, 8,97 stig.

Tíðarfarsyfirlit Veðurstofunnar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert