Íhugi að slíta stjórnmálasambandi

Ísraelskir hermenn við landamæri Ísraels og Gasasvæðisins.
Ísraelskir hermenn við landamæri Ísraels og Gasasvæðisins. Reuters

Meirihluti utanríkismálanefndar Alþingis fordæmir harðlega árás Ísraelshers á tyrknesk skip með hjálpargögn. Segist nefndarmeirihlutinn telja að það komi alvarlega til álita að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael. Utanríkisráðherra sagði á Alþingi að mótmæli af þessu tagi, jafnvel hótun á slitum á stjórnmálasambandi, skipti máli.

Í ályktun, sem meirihluti utanríkismálanefndar samþykkti á fundi í dag, segir, að slit á stjórnmálasambandi komi alvarlega til álita. Felur nefndarmeirihlutinn utanríkisráðherra að meta í samvinnu við aðrar þjóðir hvaða úrræðum verði beitt, sem verði talin áhrifaríkust til að knýja á um breytingar, svo sem alþjóðlegum viðskiptaþvingunum eða slitum á stjórnmálasambandi við Ísrael, beri önnur úrræði ekki ávöxt. 

Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, gerði grein fyrir ályktuninni í umræðum utan dagskrár um málið í dag. Sagði hann að allir fulltrúar í nefndinni hörmuðu þá atburði sem orðið hefðu við Gasaströndina. Hins vegar hefði ekki náðst samstaða um orðalag ályktunarinnar en fulltrúar allra flokka nema Sjálfstæðisflokks stóðu að henni.

Þar er m.a. utanríkisráðherra falið, í samvinnu við utanríkismálanefnd, að skipuleggja ferð til Ísraels og Gasasvæðisins og að Ísland standi að því að senda hjálpargögn til að aðstoða heimamenn og sýni þannig andstöðu við herkvína, sem Ísraelsmenn hafi sett um Gasaströndina í trássi við alþjóðalög. 

Ögmundur sagði einnig, að hann teldi þrátt fyrir allt, að þessi atburður gæti orðið til góðs „því nú verður ekki þagað lengur." 

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði í umræðunum, að ekki væri hægt að finna nógu sterk orð til að lýsa þeim verknaði þegar ísraelskir hermenn réðust til atlögu við skipalestina í gærmorgun.

Sagði Össur, að fréttamenn Ríkisútvarpsins hefðu leitað sér heimilda um þær fullyrðingar ísraeskra stjórnvalda um að farþegar í hjálparskipinu hefðu verið vopnaðir. „Hvað fundu þeir? Þeir fundu barefli og þeir fundu teygjubyssur. Segir það ekki allt sem segja þarf? Hríðskotabyssum er beint gegn fólki, sem ver sig með teygjubyssum," sagði Össur.

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði árás ísraelskra hermanna á skipalestina í gærmorgun væri forkastanleg og Ísraelsmenn hefðu enn og aftur brugðist við aðstæðum með gersamlega óviðunandi hætti og skaðað eigin málstað. Þá væri ljóst að alþjóðalög hefðu verið brotin með því að ráðast á skipin á alþjóðlegu hafsvæði.

Einar sagðist taka undir þá kröfu Evrópusambandsins frá í gær, að opna verði án tafar fyrir flutninga á hjálpargögnum til Gasasvæðisins. Þessi krafa endurómaði nú um heiminn en gengi þvert á þá ályktun meirihluta utanríkismálanefndar.

„Með þeirri ályktun hefur utanríkismálanefnd í raun skuldbundið sig til að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael og setja einhliða viðskiptaþvinganir, takist ekki að koma á friði. Það er vegarnestið, sem utanríkisráðherra hefur nú þegar hann fer til fundar við starfsbræður sínar á næstunni. Meirihlutinn kaus að taka ekki undir ályktun öryggisráðs (Sameinuðu þjóðanna) í nótt   sem meðal annars fól í sér kröfu um tafarlausa alþjóðlega rannsókn á árásinni í gær. Stærsta verkefnið verður eftir sem fyrr, að leita leiða til að leiða til lykta flókna og grafalvarlega deilu," sagði Einar. 

Össur sagðist hafna þeirri túlkun Einars, að  í ályktuninni felist fortakslaus skilyrðing á því að stjórnmálasambandi verði slitið. Össur sagðist raunar telja að viðskiptaþvinganir væru áhrifaríkari en gæta yrði þess að það komi ekki niður þar sem síst skyldi. 

Umræðan á Alþingi 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert