Íslenski fáninn brenndur á Youtube

Eldur er borinn að íslenska fánanum í myndbandinu.
Eldur er borinn að íslenska fánanum í myndbandinu.

Bens­íni er hellt yfir ís­lenska fán­ann og kveikt í hon­um í mynd­bandi frá Banda­ríkj­un­um sem sjá má á mynd­banda­vefn­um Youtu­be. Hlaðinn hef­ur verið viðarstafli, ís­lenski fán­inn breidd­ur yfir og er fjöldi manna viðstadd­ur þegar eld­ur er bor­inn að og kveikt í fán­an­um. Aðgerðin mis­heppn­ast hins­veg­ar því eld­ur­inn leiðir inn í bens­ín­brús­ann og þarf sá sem hell­ir að forða sér á hlaup­um.

Við fyrstu sýn mætti halda að þarna væri á ferðinni ein­hvers kon­ar mót­mæla­gjörn­ing­ur til að lýsa yfir and­stöðu gegn Íslandi með áhrifa­mikl­um hætti, enda er gjarn­an gripið til þess að brenna þjóðfána til að lýsa yfir andúð sinni á viðkom­andi ríki. Hér er hins­veg­ar ekki um Íslands­hat­ur að ræða og sá kær­asta eig­anda mynd­bands­ins sig knúna til að koma þeim skila­boðum á fram­færi eft­ir að mynd­bandið var birt.

Þar kem­ur fram að ís­lenski fán­inn var brennd­ur í tákn­rænni at­höfn til að kveðja afa kær­ust­unn­ar, sem að henn­ar sögn var „stolt­ur af­kom­andi ís­lenskra inn­flytj­enda" í Banda­ríkj­un­um. „Þegar hann dó í síðasta mánuði ákváðum við að brenna fán­ann til að kveðja hann og taka fán­ann hans úr notk­un. Þegar þú hætt­ir að nota fána í Banda­ríkj­un­um er ætl­ast til þess að þú brenn­ir hann. Við vor­um að fylgja þeirri hefð. Bens­ínið notuðum við vegna þess að það var mjög mik­il rign­ing sem gerði það að verk­um að það var erfitt að kveikja í. Við erum ekki sveitadurg­ar."

Mynd­bandið má sjá hér.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka