Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, lagði í kvöld fram frumvarp sem gerir ráð fyrir því að höfuðstóll bílalána verði lækkaður. Árni mælti einnig fyrir frumvarpinu í kvöld og var það afgreitt til nefndar en nefndadagar verða á Alþingi það sem eftir er vikunnar.
Árni sagði að með frumvarpinu væri ekki verið að gefa neinum neitt heldur gefa þeim einstaklingum, sem hafa þurft að þola mikla hækkun sinna lána, færi á að breyta lánunum yfir í ferli verðtryggðra lána.
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þeir einstaklingar sem fyrir 7. október 2008 keyptu bifreið til einkanota og fjármögnuðu kaupin með gengistryggðu láni eða fjármögnunarsamningi geti að uppfylltum ákveðnum skilyrðum farið fram á skilmálabreytingu lána.
Fjöldi einstaklinga með veðtryggð lán og kaupleigusamninga vegna bifreiðakaupa hjá stærstu fjármálafyrirtækjunum, Avant, Íslandsbanka, Lýsingu og SP fjármögnun) er um 48 þúsund, en þar af eru tæplega 36 þúsund eða um 75% með láns- eða kaupleigusamning með höfuðstól að hluta eða öllu leyti í erlendum myntum eða endurgreiðslur samninganna taka mið af gengi erlendra gjaldmiðla, svokölluð myntkörfulán. Námu heildareftirstöðvar lána til þeirra um 105 milljörðum króna í apríl og meðaleftirstöðvar hvers láns eru um 2,2 milljónir króna.
Fram kemur í umsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarpið, að skilmálabreytingar veðtryggðra lánssamninga og kaupleigusamninga einstaklinga vegna bifreiðakaupa # frv.það ráðist af samsetningu lánanna og hvenær þau voru tekin hversu mikið höfuðstóllinn lækki.
Þannig sé algeng samsetning lánakörfu japönsk jen og svissneskir frankar skipt til helminga. Sem dæmi er tekið, að hafi einstaklingur keypt bifreið með slíku láni í maí 2007 þá hafi höfuðstóll lánsins hækkað um 146% frá maí 2007 til apríl 2010. Með viðlíka hætti hafi greiðslubyrði lánanna hækkað en þetta séu jafnframt þær myntir sem hafi styrkst hvað mest gagnvart krónunni á síðastliðnum tveimur árum.
Á sama tíma hafi vísitala neysluverðs hækkað um 34%. Hafi einstaklingur tekið slíkt lán í maí 2007 og skuldi núna 2,2 m.kr. þá mundi skilmálabreyting samkvæmt ákvæðum frumvarpsins lækka lánið í 1,4 m.kr. eða um rúm 37%. Hefði slíkt lán með sama höfuðstól hins vegar verið tekið í september 2008 megi reikna með að það mundi lækka í um 1,9 m.kr. eða um tæp 13%.