Ósáttur við forsetann sem verndara

Jón Atli Jónasson
Jón Atli Jónasson mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Jón Atli Jónasson, leikskáld, neitar að taka við tilnefningum til Grímunnar, íslensku leiklistarverðlaunanna 2010. Segir hann ástæðuna felast í því að hann neiti að viðurkenna núverandi verndara Grímunnar Ólaf Ragnar Grímsson. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Jón Atli hefur sent frá sér. Þar hvetur hann fleiri listamenn til þess að fylgja fordæmi sínu. Gríman verður afhent 16. júní en tilnefningar verða kynntar nk. föstudag.

Yfirlýsing Jóns Atla:

„Ég undirritaður, Jón Atli Jónasson, neita að taka við tilnefningum til Grímunnar, íslensku leiklistarverðlaunanna 2010. Ástæðan fyrir þessu eru einföld. Ég neita að viðurkenna núverandi verndara Grímunnar, forseta vorn, Ólaf Ragnar Grímsson. Ég geri þetta í krafti þess að það er of margt sem hann þarf að svara fyrir í forsetatíð sinni til að geta borið titilinn „verndari Grímunnar.“ Þetta er pólitísk aðgerð en framkvæmd í kærleika. Virðing mín fyrir forsetaembættinu er mikil. Ást mín á íslensku þjóðinni og íslenskum listum verður vonandi seint dregin í efa. Ég er forsvari hennar á erlendum vettvangi við mörg tilefni.

En ég hvet kollega mína í leiklist til þess að fylkjast um þessa ákvörðun mína. Við getum ekki þegið verðlaun eða tilnefningar úr hendi forseta hvers forsetatíð þarf rannsóknar og endurskoðunar við. Ef Grímuverðlaunin sem verðlaunaafhending ætla sér stórt  og mikilvægt  hlutverk í íslensku þjóðfélagi þá verðum við að setja kröfur.

Í hugmyndafræðilegu gjaldþroti tímanna sem við lifum, hvort sem um er að ræða nýfrjálshyggju eða vinstrimenn þá verðum við listamenn að viðhalda heilindum okkar. Árið er núll - allt mistókst og nú er það okkar að hirða upp líkin.

Kæru kollegar, ég vona að þig standið með mér í því að hunsa þessi verðlaun þar til við finnum verðugan verndara Grímunnar. Annars eru þau bara hjómið eitt og smækka listrænu vinnu okkar allra. Við verðum nefnilega að vera sammála um hvaða andlit er á bak við þessa grímu. Kæru kollegar, ég vona að við verðum ekki úlfar í nóttinni heldur samstillt um þetta átak,“ skrifar Jón Atli.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert