Samfylking finni nýja forystu

Sigmundur Ernir Rúnarsson
Sigmundur Ernir Rúnarsson mbl.is/Ómar

Næstu mánuði þarf Samfylkingin að setjast niður og leita að nýrri forystu. Þetta er mat Sigmundar Ernis Rúnarssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, sem telur að Jóhanna Sigurðardóttir hafi tekið tilneydd við embætti forsætisráðherra. Hún horfi fram á niðurskurð í velferðarkerfi sem hún hafi byggt upp.

Sigmunur Ernir lét þessi orð falla í spjallþættinum Hrafnaþingi fyrr í kvöld en þar fór hann yfir sviðið ásamt Tryggva Þór Herbertssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, Birki Jóni Jónssyni, varaformanni Framsóknarflokksins, og þáttastjórnandanum, Ingva Hrafni Jónssyni.

Sigmundur ræddi stöðuna í stjórnmálunum einnig í þætti sínum Mannamáli á sömu stöð, ÍNN, í kvöld en þar sagði hann almenning hafa fengið nóg af gerspilltum stjórnmálum. Sá lýðræðisgluggi sem hefði opnast haustið 2008 væri hins vegar að lokast, þróun sem hann harmaði.

Á Alþingi þrífist menn á að rífa hvern annan niður í stað þess að vinna saman.

Viðmælandi Sigmundar Ernis var Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, en hann sagðist aðspurður ekkert liggja fyrir um hvort hann væri á leið í ríkisstjórn eða ekki, engar ákvarðanir hefðu verið teknar um það.

Ögmundur gerði stöðu ríkisstjórnar VG og Samfylkingar að umtalsefni með þeim orðum „stærsta ógnin við stjórnina væri leynd og skortur á lýðræði“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert