Verð fyrir þjónustu sérfræðilækna hækkar

1,9% samningsbundin hækkun sérfræðilækniskostnaðar kemur til framkvæmda í dag. Heilbrigðisráðuneytið segist undanfarið hafa átt í viðræðum við Læknafélag Reykjavíkur um að félagið taki þátt í því með ráðuneytinu að lækka lækniskostnað sjúkratrygginga, en samningar um slíkt hafi ekki tekist.

Í fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir 1300 milljóna króna lækkun á lækniskostnaðarliðnum sem að stærstum hluta er þjónusta sérfræðilækna og rannsóknir. Að auki er 700 milljóna króna halli frá fyrra ári.

Heilbrigðisráðuneytið segir, að farið  hafi verið fram á samstarf um ýmsar aðgerðir sem ætlað hafi verið að lækka kostnað, þar á meðal 10% lækkun einingaverðs.

„Læknafélagið samþykkti viðræður um niðurskurð á kostnaði við sérfræðilæknaþjónustu. Jafnframt var samþykkt að meðan viðræður stæðu yfir yrði frestað um tvo mánuði 1,9% hækkun sem átti að koma til framkvæmda 1. apríl s.l. Læknafélag Reykjavíkur taldi þær tillögur sem heilbrigðisráðuneytið lagði fram í megindráttum óaðgengilegar," segir á heimasíðu ráðuneytisins.

Þá kemur fram, að hækkunin hafi þau áhrif að hlutur sjúklinga hækki að meðaltali um 1,2%. Þó sé hækkunin nokkuð minni hjá börnum, öldruðum og öryrkjum.

„Heilbrigðisráðuneytið mun leita annarra leiða til að draga úr kostnaði vegna sérfræðiþjónustu og væntir þess að unnt verði að hafa samráð við sérfræðilækna um útfærslu þeirra aðgerða," segir ráðuneytið.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert